Dómararnir stjórnuðu því sem fór fram

Borche Ilievski ræðir við sína menn.
Borche Ilievski ræðir við sína menn. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, var svekktur eftir 75:90-tap sinna manna gegn Stjörnunni er þau mættust í fjórða skipti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:2 og mætast þau í oddaleik í Garðabænum á fimmtudaginn kemur. Ilevski var allt annað en sáttur við dómara leiksins. 

„Línan hjá dómurunum var ekki sú sama og í síðasta leik. Við lentum í villuvandræðum snemma og við gátum ekki spilað vörn. Við urðum stressaðir eftir það, sem á ekki að gerast og við fórum að einbeita okkur að dómurunum í staðinn fyrir að laga mistökin okkar. Ofan á það skoruðu tveir leikmenn Stjörnunnar 55 stig sem er óásættanlegt. Dómararnir stjórnuðu því sem fór fram í fyrri hálfleik,“ sagði Ilievski svekktur. 

ÍR vann síðast er liðin mættust í Garðabænum en Borche á von á erfiðum oddaleik. „Stjarnan tryggði sér oddaleik á heimavelli og þetta verður erfitt. Auðvitað ætlum við ekki að gefast upp. Við höfum unnið þar áður og við getum gert það aftur.“

Kevin Capers, bandarískur leikmaður ÍR, var áberandi í leiknum og oft og tíðum fyrir neikvæða hluti, eins og að kvarta í dómurunum. 

„Hann er hreinskilinn og baráttan í honum er mikil. Stundum lendir hann í vandræðum því baráttuandinn er of mikill. Yfirhöfuð er hann toppmaður,“ sagði Ilievski. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert