Sylvía Rún til meistaranna

Sylvía Rún Hálfdanardóttir tekur í spaðann á Darra Frey Atlasyni, …
Sylvía Rún Hálfdanardóttir tekur í spaðann á Darra Frey Atlasyni, þjálfara Vals. Ljósmynd/Valur

Sylvía Rún Hálfdanardóttir mun leika með Íslands-, deildar- og bikarmeisturum Vals í körfubolta á næstu leiktíð en þessi tvítugi leikmaður hefur skrifað undir samning til næstu tveggja ára við félagið.

Sylvía hefur þrátt fyrir ungan aldur náð að spila fyrir öll landslið Íslands en hún var 17 ára þegar hún var fyrst valin í æfingahóp A-landsliðsins. Þá var hún til að mynda valin í fimm manna úrvalslið B-deildar Evrópumóts U18-landsliða árið 2016 þegar íslenska liðið náði sínum besta árangri frá upphafi.

Sylvía hóf ferilinn hjá Haukum en lék með Stjörnunni í fyrra og svo í 1. deild með Þór Akureyri í vetur. Þar fór hún á kostum og skoraði 21,7 stig að meðaltali, tók 12,3 fráköst og gaf 5,1 stoðsendingu. Framlag hennar í leik var að meðaltali 25,8 og var hún langatkvæðamest í liði Þórs sem endaði í 3. sæti deildarinnar og féll út gegn Grindavík í undanúrslitum umspils um sæti í efstu deild.

Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, er ánægður með komu Sylvíu: „Sylvía Rún er fjölhæfur leikmaður sem mun styrkja liðið frá fyrstu æfingu. Hún getur spilað margar stöður á vellinum og spilar alltaf af fullum krafti. Sylvía mun enn frekar auka samkeppnina innan liðsins og ákefð á æfingum sem eru meðal lykilforsenda árangurs Valsliðsins. Hún átti stórkostlegt tímabil í fyrstu deildinni hvar tölfræðin talar sínu máli um fjölhæfni Sylvíu. Við munum gera okkar besta til þess að hjálpa henni við að byggja ofan á þessa velgengni og verða mikilvægur hluti Valsliðsins komandi ár.“

Sjálf segir Sylvía Rún: „Ég er mjög spennt fyrir að spreyta mig með Valsliðinu í Dominosdeildinni næstu misserin. Valsliðið er frábærlega mannað og það verður gaman að fá að vera partur af þessu liði. Ég hlakka til að leggja mitt að mörkum fyrir félagið bæði innan sem utan vallarins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert