Ívar Ásgrímsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í körfuknattleik. Hann mun einnig þjálfa drengja og unglingaflokk félagsins og taka við starfi yfirþjálfara yngri flokka félagsins. Þetta kemur fram á facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Breiðabliks.
Ívar hefur þjálfað karlalið Hauka undanfarin ár og hefur einnig þjálfað kvennalið félagsins og þá þjálfaði hann kvennalandsliðið árin 2004-2005 og 2014-2018.
„Ég er bara mjög spenntur að koma í þetta öfluga félag. Það er ljóst er að það er metnaður hér innanhúss og metnaður í að koma báðum meistaraflokkum upp og að nýta yngri flokkana í meistaraflokkana, eins og ég hef verið að gera síðustu ár. Við stefnum að því að gera svipaða hluti og koma Breiðablik í fremstu röð. Það verður mjög gaman að taka þátt í því verkefni,“ segir Ívar í viðtali á facebook-síðu Breiðabliks.