Verðlaun í höfn eftir stórsigur

Gunnhildur Gunnarsdóttir með boltann í sigrinum á Mónakó í dag.
Gunnhildur Gunnarsdóttir með boltann í sigrinum á Mónakó í dag. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta hefur staðið sig vel á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi og ljóst er að liðið fer heim með verðlaun.

Ísland vann stórsigur á Mónakó í dag, 91:59, og er sem stendur efst af þeim sex liðum sem taka þátt á mótinu með sjö stig. Svartfjallaland, eina liðið sem unnið hefur Ísland, er hins vegar með fullt hús stiga og kemst á toppinn með sigri á Lúxemborg í dag. Ísland er öruggt um bronsverðlaun og einnig öruggt um silfurverðlaun ef Svartfjallaland vinnur Lúxemborg.

Ísland var 51:28 yfir í hálfleik í dag eftir að hafa aðeins fengið á sig 5 stig í 2. leikhluta. Embla Kristínardóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 14 stig en Helena Sverrisdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir skoruðu 12 stig hvor og Hallveig Jónsdóttir 10. Allir tólf leikmenn íslenska liðsins komust á blað í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert