Hilmar Smári búinn að semja við Valencia

Hilmar Smári í leik með U20 ára landsliðinu.
Hilmar Smári í leik með U20 ára landsliðinu. Ljósmynd/FIBA

Hilm­ar Smári Henn­ings­son, körfu­boltamaður­inn stór­efni­legi í liði Hauka sem var valinn besti ungi leikmaðurinn í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð, er búinn að semja við spænska stórliðið Valencia.

Eins og mbl.is greindi frá í apríl var Hilmari boðið út til æfinga hjá Valencia og þar hreif hann forráðamenn félagsins sem gerðu honum tilboð sem hann hefur nú tekið. Hilmar er 19 ára gamall, sem átti frábært tímabil með Haukunum í Dominos-deildinni á síðasta tímabili þar sem hann skoraði 14 stig, tók 4,2 frá­köst og gaf 3,4 stoðsend­ing­ar að meðaltali. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðunum og fékk tækifæri með A-landsliðinu í fyrsta skipti á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi á dögunum.

Hilmar Smári í búningi Valencia.
Hilmar Smári í búningi Valencia.

Samningur Hilmars Smára við Valencia gildir til tveggja ára með möguleika á framlengingu um tvö ár í viðbót. Valencia tryggði sér í síðasta mánuði sigur í Evrópubikarkeppninni eftir sigur á Martin Hermannssyni og félögum hans í þýska liðinu Alba Berlín. Það var fjórði sig­ur Valencia í Evr­ópu­bik­arn­um en liðið vann keppn­ina 2003, 2010 og 2014. Valencia varð Spán­ar­meist­ari árið 2017.

Þessi lífslangi draumur orðinn að veruleika

„Ég er sjálfsögðu gríðarlega ánægður og spenntur fyrir þessu tækifæri. Ég hafði ekkert of háar væntingar þegar ég fór út til Valencia en það kom mér á óvart hversu klassa klúbbur þetta er. Það er allt upp á tíu og ekki hægt að setja út á neitt. Ég var strax hrikalega hrifinn,“ sagði Hilmar Smári við mbl.is í kvöld.

„Valencia hefur greinilega mikla trú á mér og það eina sem ég þarf að gera er að sýna þeim að þeir hafi rétt fyrir sér. Ég er út í ágúst og hef þá æfingar með aðalliðinu og samkvæmt planinu núna verð ég með varaliðinu fyrsta veturinn og verð til taks með aðalliðinu þegar á þarf að halda. Síðan kemur bara í ljós með framhaldið. Frá því ég var smá strákur þá hef ég alltaf stefnt á að fara út í háskólaboltann í Bandaríkjunum en lið í Evrópu sýndu mér mjög mikinn áhuga og að fá tækifæri til að fara til Valencia var eitthvað sem ég gat ekki sleppt. Nú er þessi lífslangi draumur orðinn að veruleika,“ sagði Hilmar Smári, sem verður í eldlínunni með U20 ára landsliðinu á Evrópumótinu í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert