Finnur Freyr Stefánsson, sem stýrði KR til fimm Íslandsmeistaratitla í röð í körfubolta karla, hefur verið ráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins Horsens til næstu tveggja ára.
Finnur stýrði KR á árunum 2014-2018 og varð liðið Íslandsmeistari öll árin. Síðan þá hefur hann ekki þjálfað félagslið í meistaraflokki en nú er orðið ljóst að hann flytur sig um set til Danmerkur.
„Ég er stoltur af því að fá þetta tækifæri hjá Horsens. Þetta er félag með langa og mikla sögu, sem ég hlakka til að eiga þátt í. Ég tel að þetta sé hárrétt skref á mínum ferli og hlakka til að hefja störf,“ segir Finnur sem einnig er aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, þar sem hann aðstoðar Craig Pedersen sem var leikmaður Horsens á sínum tíma.
Finnur tekur við Horsens af Króatanum Arnel Dedic sem stýrði liðinu til úrslita í vor þar sem liðið tapaði 4:0 fyrir Bakken Bears. Horsens hefur sex sinnum orðið Danmerkurmeistari, síðast árið 2016, og fjórum sinnum bikarmeistari, síðast í vetur.