Stíg inn í spennandi umhverfi

Finnur Freyr Stefánsson gerði KR að Íslandsmeistara fimm ár í …
Finnur Freyr Stefánsson gerði KR að Íslandsmeistara fimm ár í röð. mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Freyr Stefánsson er tekinn við Horsens og er ætlað að þoka liðinu nær því að stöðva meistara síðustu þriggja ára, Bakken Bears, í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Finnur hefur verið ráðinn þjálfari Horsens til næstu tveggja ára en hann þjálfaði síðast KR og gerði liðið að Íslandsmeistara fimm ár í röð, árin 2014-2018. Nú færir hann sig yfir á sviðið í Danmörku:

„Það eru svona 2-3 vikur síðan að þetta kom upp og þar til að þetta var klárað. Það var haft samband við mig frá Horsens og eftir fyrsta símtal fann ég að það var mikill áhugi á að fá mig koma. Hvað mig varðar snerist þetta meira um þá ákvörðun hvort maður vildi flytja út með fjölskylduna eða halda áfram heima, en um leið og við ákváðum að við vildum fara út og prófa þetta þá gengu hlutirnir ansi hratt fyrir sig,“ segir Finnur við mbl.is, en hann var spenntur fyrir því að taka við sterku liði.

Ætlað að velta Bakken af stalli

„Liðið hefur farið í úrslit síðustu ár og varð meistari 2015 og 2016, og varð danskur bikarmeistari í ár, svo þetta er gott lið. Staðan í dönskum körfubolta er samt sú að Bakken Bears hefur verið yfirburðalið með langmestan pening á milli handanna til leikmannakaupa. Horsens hefur hins vegar fest sig í sessi sem lið númer tvö, og er með góða uppsetningu á félaginu til að berjast við Bakken. Mitt verkefni er að koma inn og reyna að brúa bilið, og velta Bakken af þeim stalli sem liðið hefur verið á undanfarinn áratug,“ segir Finnur. Var það alltaf stefnan að komast út eftir árin fimm sem þjálfari KR?

„Ekkert endilega. Jú, ég var búinn að gefa það út að ég hefði áhuga á að þjálfa erlendis, en var ekkert harðákveðinn í því hvert ég vildi fara. Ég ákvað að skoða bara hvert dæmi fyrir sig og þetta var eitthvað sem mér þótti virkilega spennandi. Þetta er gott lið í deildinni, með góða umgjörð og góða sögu, og af því fer virkilega gott orð í körfuboltaheiminum. Þetta er því spennandi umhverfi til að stíga inn í,“ segir Finnur.

Gott að geta leitað til Craig og Arnars

Finnur er aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins þar sem hann hefur starfað með Craig Pedersen og Arnari Guðjónssyni sem báðir þjálfuðu í Danmörku. Craig var auk þess leikmaður Horsens á sínum tíma og býr í Danmörku:

„Ég er búinn að vera í heimsókn hjá honum síðustu daga. Við fjölskyldan kíktum á aðstæður um síðustu helgi enda þurftum við að skoða málin og hugsa þetta. Craig og Arnar þekkja vel til í danska boltanum og hafa verið manni innan handar til að sjá allar hliðar á málinu. Þetta er auðvitað ný deild fyrir mig með nýjum áherslum og nýjum hlutum, svo það er gott að geta fengið góð ráð frá mönnum sem maður treystir,“ segir Finnur.

Körfuboltaumhverfið er þannig að ekki kemur til með að reyna mikið á dönskukunnáttu Finns:

„Ég get lesið dönsku ágætlega en ég er búinn að vera að reyna að hlusta á Danina tala og hristi bara hausinn. Ég var líka að gera grín að þeim með það af hverju í ósköpunum þeir gætu ekki bara sagt tölurnar með sams konar hætti og aðrir. Þetta verður nú mikið til á ensku hjá mér en maður reynir að pikka upp einhverja dönsku í leiðinni,“ segir Finnur léttur.

Craig Pedersen og Finnur Freyr Stefánsson hafa unnið náið saman …
Craig Pedersen og Finnur Freyr Stefánsson hafa unnið náið saman síðustu ár. Craig er öllum hnútum kunnugur í Danmörku þar sem hann á heima. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert