Pétur Már Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari Vestra í körfuknattleik karla og mun hann stýra liðinu í 1. deildinni á næstu leiktíð en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag. Pétur þekkir vel til hjá félaginu en hann þjálfaði bæði karla- og kvennalið KFÍ á árunum 2011 til ársins 2013.
Pétur er reynslumikill þjálfari en hann hefur meðal annars þjálfað lið á borð við Skallagrím og Fjölni á ferli sínum. Hann stýrði síðast liði Stjörnunnar í úrvalsdeild kvenna en liðið fór alla leið í úrslit bikarkeppninnar á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði fyrir Val.
Þá fór Stjarnan í undanúrslit Íslandsmóts kvenna þar sem liðið tapaði fyrir Keflavík í oddaleik. Þá mun Pétur einnig taka að sér þjálfun yngri flokka hjá Vestra en hann mun hefja störf fyrir vestan næsta haust.