Sigurður búinn að semja í Frakklandi

Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR í vetur.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er farinn aftur út í atvinnumennsku og hefur samið við franska liðið BC Orchies um að leika með liðinu næsta vetur.

Félagið spilar í frönsku C-deildinni, fór í átta liða úrslit um sæti í B-deildinni í vor og ætlar sér upp á næsta tímabili. Þetta verður fjórða erlenda félagið sem Sigurður leikur með eftir að hafa áður verið á mála hjá Solna í Svíþjóð og grísku liðunum Doxas og AEL.

Sigurður lék með ÍR-ingum hér heima síðastliðinn vetur og fór með liðinu alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Hann skoraði 13,4 stig og tók 8,4 fráköst að meðaltali í leik var valinn í lið ársins. Eftir að tímabilinu lauk horfði hann til þess að fara út, en var einnig í viðræðum við ÍR-inga.

„Ég átti meira að segja að skrifa undir hjá þeim á laugardaginn en þurfti að bakka út úr því bara á föstudeginum,“ sagði Sigurður við mbl.is í dag, en í samningnum hefði þó verið klásúla um að hann mætti fara ef tilboð bærist að utan.

Sigurður varð Íslandsmeistari með Grindavík árin 2013 og 2014 og bikarmeistari árið 2014, en auk ÍR hefur hann einnig leikið með KFÍ og Keflavík hér á landi. Hann flyst nú til Orchies, átta þúsund manna bæjar í norður Frakklandi.

„Ég er ekki búinn að skoða aðstæður, en hef verið í sambandi við bandaríska leikmenn sem ég spilaði með áður og hafa verið í deildinni. Þeir töluðu vel um þetta, en sögðu reyndar að það væri svo sem ekki neitt í bænum,“ sagði Sigurður, sem talar ekki frönsku heldur og er ekkert ragur við að flytja í franskan smábæ.

„Nei, ég kem frá Ísafirði sko. Ég ólst upp í smábæ, svo það truflar mig ekki neitt. Fjölskyldan kemur líka með út, við erum með eins árs gutta svo það er nóg að gera hvort sem er,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert