Ég elska að koma heim

Frank Aron Booker á æfingunni í dag.
Frank Aron Booker á æfingunni í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Ég er rosalega glaður að fá loksins að spila með landsliðinu. Ég er búinn að bíða eftir þessu tækifæri mjög lengi og ég hlakka til að spila með þessum gaurum," sagði Frank Aron Booker, nýliði í íslenska landsliðinu í körfubolta í samtali við mbl.is á æfingu landsliðsins í Seljaskóla í dag. 

Frank hefur síðustu ár verið í háskóla í Bandaríkjunum, áður en hann lék í eitt tímabil með Évreux í frönsku B-deildinni. Hann viðurkennir að hann hafi ekki haft mikinn tíma til að fylgjast með landsliðinu til þessa. 

„Ég hef fylgst smá með, en ekki mjög mikið. Það var oft mjög mikið að gera í skólanum, svo ég hafði ekki alltaf tíma til að fylgjast með. Nú einbeiti ég mér að leikmönnunum sem ég spila með í þessu verkefni, en ekki fortíðinni."

Mjög mikilvægt fyrir mig að halda íslenskunni

Frank bjó hér á landi fyrstu ár ævi sinnar og reynir eins og hann getur að halda í íslenskuna, sem er góð. Móðir hans er íslensk, en faðir hans er Bandaríkjamaðurinn Franc Booker, sem spilaði á sínum tíma með ÍR, Val og Grindavík hér á landi. 

„Ég hringi í mömmu mína mjög oft og ég tala við hana eins mikið og ég get. Stundum gleymi ég orðum hér og þar, þá hringi ég í mömmu og spyr hana. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að halda íslenskunni, sem er mitt fyrsta tungumál á meðan enska er annað tungumálið mitt."

Hann var sáttur með sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku, en hann er nú án félags. Öll hans einbeiting er á íslenska landsliðinu og er hann ánægður með að vera kominn aftur heim til Íslands. 

„Þetta var mjög gott fyrir mig. Það var gott að sjá hvernig boltinn er í Evrópu og í Frakklandi. Þetta var gaman og ég kynntist gaurum sem nú eru vinir mínir. Núna er ég hins vegar að einbeita mér að íslenska landsliðinu. Öll mín einbeiting er þar og ég elska að koma heim," sagði Frank Aron. 

Frank Aron Booker.
Frank Aron Booker. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert