Þótt þetta hallærislegt í gegnum tíðina

Hlynur á æfingunni í dag.
Hlynur á æfingunni í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hlynur Bæringsson er í íslenska landsliðshópnum í körfubolta sem mætir Portúgal og Sviss í forkeppni fyrir undankeppni EM 2021 í næsta mánuði. Hlynur gaf það út eftir leik gegn Portúgal í febrúar að hann væri hættur með landsliðinu.

Vegna forfalla í landsliðinu var kallað á Hlyn á ný og hann svaraði kallinu. Hlynur var glaður í bragði þegar mbl.is spjallaði við hann á landsliðsæfingu í Seljaskóla í dag. 

„Ég neitaði fyrst. Ég hafði ekki áhuga á að vera einn af þeim leikmönnum sem hættir við að hætta. Mér hefur þótt það frekar hallærislegt í gegnum tíðina þegar menn eru að því. Áður en ég vissi að var ég orðin týpan sem ég var búinn að gera grín að allan minn feril. Það er erfitt að kyngja því og ég er lítill í mér fyrir blaðamannafund sem ég þarf að fara á," sagði Hlynur brosandi. 

Hlynur Bæringsson var hylltur eftir 125. landsleikinn, sem átti að …
Hlynur Bæringsson var hylltur eftir 125. landsleikinn, sem átti að vera sá síðasti. Haraldur Jónasson/Hari

„Þeir töluðu við mig nokkrir í röð; Haukur, Baldur Ragnars, Finnur og svo Craig. Ég hélt fyrst þeir væru að djóka, en svo endaði ég á að segja já. Stór hluti af þessu var að það vantar Kristófer, Sigga og svo Hauk líka," sagði Hlynur, en Kristófer Acox, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Haukur Helgi Pálsson eru ekki með í verkefninu. 

Er því miður árinu eldri

Hlynur segist vera í fínu standi, þótt hann hafi ekki búist við að mæta í leiki með landsliðinu á þessum tímapunkti. 

„Mér líður ágætlega fyrir þetta verkefni. Ég er ekki alveg kominn í mitt besta stand en það kemur með hverri æfingu. Þetta er svolítið sjokk, þar sem ég bjóst ekki við að vera með. Ég hefði undirbúið mig öðruvísi ef ég hefði vitað að landsliðið væri í júlí. Það tók mig því tíma að komast í gang, því ég er því miður orðinn árinu eldri. Annars líður mér ágætlega, maður verður að þekkja sín takmörk og vera sáttur við sitt.

Ég hef ekkert skotið eða spilað í sumar. Ég hef mest verið að lyfta og er í ágætu standi þannig. Ég hef eiginlega ekkert verið í sal, nema þegar ég er að þjálfa litla krakka. Ég var ekki byrjaður að búa mig undir að spila, þar sem ég hélt ég myndi ekki byrja spila fyrr en í september eða október," sagði Hlynur Bæringsson. 

Hlynur Bæringsson
Hlynur Bæringsson mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert