Gunnar hættur í Keflavík

Gunnar Ólafsson á æfingu íslenska landsliðsins í Seljaskóla í gær.
Gunnar Ólafsson á æfingu íslenska landsliðsins í Seljaskóla í gær. mbl.is//Hari

Körfuknattleikskappinn Gunnar Ólafsson hefur rift samningi sínum við Keflavík en þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í gær. Gunnar gekk til liðs við Keflavík fyrir síðasta tímabil en þar áður hafði hann leikið með St. Francis-háskólanum í New York í Bandaríkjunum undanfarin þrjú ár. 

„Markmiðið er að spila erlendis á næstu leiktíð og ég er í raun bara að vinna í því núna að koma mér út,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is á æfingu íslenska landsliðsins í Seljaskóla í gær. „Þessi ákvörðun mín að yfirgefa Keflavík hefur ekkert með það að gera að Sverrir hafi hætt með liðið. Ég rifti mínum samningi daginn áður en Sverrir sagði upp, þannig að það var í raun bara tilviljun að þetta skyldi hittast svona á.“

Gunnar átti mjög gott tímabil með Keflvíkingum síðasta vetur og skoraði 14 stig að meðaltali, tók 4 fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Gunnar viðurkennir að það sé möguleiki á því að hann sé ekki á leiðinni utan en hann var einn af betri varnarmönnum deildarinnar á síðustu leiktíð.

„Ég er meðvitaður um það að það getur allt gerst í þessu og það er alveg möguleiki á því að ég fari ekki út, ég geri mér grein fyrir því. Ef það verður staðan í haust þá veit ég ekki alveg hvað gerist. Ég vil ekki útiloka neitt og kannski fer það svo að ég endi á að taka slaginn í íslensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.“

Móðurbróðir Gunnars er körfuboltagoðsögnin Falur Harðarson en hann þjálfar í dag nýliða Fjölnis sem tryggðu sér sæti í efstu deild síðasta vor.

„Það væri vissulega ákveðin rómantík í því að spila fyrir Fal og við höfum rætt þetta nokkrum sinnum í fjölskylduboðum í gegnum tíðina. Hvort þetta sé rétti tímapunkturinn til þess að gera það þarf eiginlega bara að koma í ljós en það er frekar ólíklegt að ég sé að fara í Fjölni eins og staðan er í dag,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

Gunnar Ólafsson var einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð …
Gunnar Ólafsson var einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en hér er hann í baráttunni við Íslandsmeistarann Kristófer Acox. mbl.is//Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert