Setti fjölskylduna í fyrsta sætið

Collin Pryor yfirgaf Stjörnuna nokkuð óvænt fyrr í sumar en …
Collin Pryor yfirgaf Stjörnuna nokkuð óvænt fyrr í sumar en hann er opinn fyrir því að reyna fyrir sér á erlendri grundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ákveðin biðstaða í mínum málum eins og staðan er núna,“ sagði Collin Anthony Pryor, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska landsliðsins í Laugardalshöll í gær.

Collin yfirgaf Stjörnuna nokkuð óvænt þann 10. júlí síðastliðinn en hann gekk til liðs við Garðbæinga vorið 2017 þegar hann kom til félagsins frá Fjölni í Grafarvogi. Framherjinn skoraði 10,5 stig að meðaltali og tók 5,4 fráköst í leik með liðinu á tíma sínum í Garðabænum og þá varð hann deildar- og bikarmeistari með Stjörnunni á síðustu leiktíð.

„Planið er að vanda valið og þá erum ég og fjölskylda mín opin fyrir því að prófa eitthvað alveg nýtt. Hvort sem það verður í Evrópu eða Íslandi þarf eiginlega bara að koma í ljós en ég, konan mín og sonur minn erum öll spennt fyrir komandi tímum.“

Collin er 29 ára gamall en hann hefur leikið á Íslandi frá árinu 2013 þegar hann gekk til liðs við FSU en hann fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári.

„Það hefur verið einhver áhugi, bæði frá liðum í Evrópu sem og á Íslandi, en ég mun fara vel yfir öll tilboð sem berast með fjölskyldunni minni og taka svo ákvörðun út frá því. Það hefur ekkert formlegt tilboð borist ennþá en það er ekkert stress í mér eins og staðan er núna. Við bíðum bara og sjáum hvað gerist í haust.“

Framherjinn viðurkennir að það hafi verið erfitt að yfirgefa Stjörnuna þar sem hann hefur leikið frá árinu 2017 en segir að það hafi verið rétt ákvörðun að kveðja félagið á þessum tímapunkti.

„Það var leiðinlegt að yfirgefa Stjörnuna á þennan hátt. Ég fór í Garðabæinn til þess að ná ákveðnum markmiðum sem tókst ekki sem var vissulega svekkjandi þar sem við vorum með liðið til þess að gera frábæra hluti. Þegar allt kemur til alls ákvað ég að fara því það var best fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég setti fjölskylduna í fyrsta sætið í þetta skiptið og þótt þetta hafi verið erfið ákvörðun var þetta rétta ákvörðunin,“ sagði Colin Pryor í samtali við mbl.is.

Collin Pryor varð deildar- og bikarmeistari með Stjörnunni á síðustu …
Collin Pryor varð deildar- og bikarmeistari með Stjörnunni á síðustu leiktíð. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert