Slær nokkrar flugur í einu höggi með heimkomunni

Frank Aron Booker var valinn í íslenska landsliðið á dögunum …
Frank Aron Booker var valinn í íslenska landsliðið á dögunum fyrir leikina gegn Portúgal og Sviss í undankeppni EM. mbl.is/Hari

Körfuknattleikskappinn Frank Aron Booker ákvað að feta í fótspor föður síns, Franks Bookers eldri, á dögunum þegar hann skrifaði undir eins árs samning við Val í úrvalsdeildinni en faðir hans lék með Valsliðinu á árunum 1991 til 1994 og þá þjálfaði hann liðið tímabilið 2013-2014.

Frank Aron lék síðast með Évreux í frönsku B-deildinni á síðustu leiktíð en hefur nú ákveðið að snúa heim, meðal annars vegna þess að hann vill endurnýja kynnin við fjölskyldu sína hér á landi og ná betri tökum á íslenskunni sem var aðeins farin að sleppa frá honum.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá áttu þessi félagaskipti sér ekki neitt sérstaklega langan aðdraganda,“ sagði Frank Aron í samtali við mbl.is á dögunum. „Þegar ég kem heim í ágúst til að spila með landsliðinu í undankeppni EM þá er ég án félags. Fyrir síðasta leikinn gegn Sviss í Montreux var lítið að gerast í mínum málum og ég hafði aðeins heyrt í Valsmönnum þar sem pabbi minn spilaði með liðinu á sínum tíma. Ég tók svo bara ákvörðun í samráði við umboðsmann minn um að koma heim og taka allavega eitt ár hérna heima og spila fyrir Val.

Við pabbi höfum rætt hans tíma á Íslandi margoft og ég er farinn að kunna þá sögu ágætlega. Valur er hans félag hérna heima og mig langaði í raun bara til þess að feta í fótspor hans. Ég er mjög spenntur fyrir því að koma aðeins heim og eyða smá tíma með fjölskyldu minni. Það verður gaman fyrir móðir mína að sjá mig spila og ég hlakka virkilega til þess að byrja tímabilið með Valsmönnum í október.“

Frank Aron Booker ásamt og Ágústi Björgvinssyni þjálfari Vals.
Frank Aron Booker ásamt og Ágústi Björgvinssyni þjálfari Vals. Ljósmynd/Valur

Stoltur af ákvörðuninni

Frank Aron var síðast á Íslandi árið 2007 en hefur síðan þá búið í Bandaríkjunum. Hann talar góða íslensku en viðurkennir að hann hafi aðeins verið farinn að missa taktinn í tungumálinu.

„Þetta var ákvörðun sem ég tók algjörlega sjálfur að koma heim. Mamma mín hefur alltaf staðið þétt við bakið á mér og stutt mig í öllum þeim ákvörðunum sem ég hef tekið. Það fyrsta sem ég gerði eftir að ég var búinn að skrifa undir var að hringja í mömmu og hún var fyrst og fremst stolt þegar ég sagði henni fréttirnar. Ég fann ekki fyrir neinni pressu en að sama skapi fann ég það í hjarta mínu að mig langaði að vera aðeins hérna heima því það eru komin tólf ár síðan ég var hérna síðast. Ég vil ná íslenskunni aðeins til baka og ég er virkilega stoltur af þessari ákvörðun minni.“

Þar sem skotbakvörðurinn hefur búið í Bandaríkjunum undanfarin ár hefur hann lítið fylgst með íslenskum körfubolta en hann hefur verið duglegur á Youtube síðan hann samdi við Val.

„Ég hef ekki fylgst mikið með íslenskum körfubolta undanfarin ár. Ég var að spila í Bandaríkjunum lengi vel og einbeitti mér þess vegna að bandarískum körfubolta. Eftir að ég skrifaði undir hérna heima er ég búinn að vera duglegur á Youtube að horfa á upptökur úr leikjum úr úrvalsdeildinni til að reyna að læra aðeins inn á boltann sem er spilaður á Íslandi. Ég er byrjaður að mæta á æfingar og þetta lítur mjög vel út. Ég er aðeins byrjaður að kynnast strákunum í liðinu og bandaríski leikmaðurinn okkar lofar mjög góðu. Mér finnst ég fyrst og fremst vera heppinn að fá tækifæri til þess að spila með Val og ég er mjög tilbúinn í þetta tímabil.“

Frank Aron Booker í leik í háskólaboltanum vestanhafs veturinn 2017.
Frank Aron Booker í leik í háskólaboltanum vestanhafs veturinn 2017. Ljósmynd/South Carolina

Frábært að hafa pabba á hliðarlínunni

Faðir Franks Arons, Frank Aron eldri, er goðsögn í íslenskum körfubolta en hann átti lengi vel metið yfir flestar þriggja stiga körfur skoraðar í einum leik, eða fimmtán þriggja stiga körfur en Brynjar Þór Björnsson, þáverandi leikmaður Tindastóls og núverandi leikmaður KR, bætti það met á síðasta keppnistímabili.

„Í fyrstu vildi pabbi að ég myndi aðeins taka því rólega og skoða þá möguleika sem í boði væru í Evrópu. Þegar ég tjáði honum að mig langaði bara að koma heim til Íslands og spila þar sýndi hann því mikinn skilning. Hann er svo búinn að vera að ýta aðeins á mig að undanförnu að finna mér vinnu með körfuboltanum því honum finnst ég stundum hálflatur á daginn. Hann ýtir við mér á góðan máta og er alltaf tilbúinn að hjálpa mér, sama hvað. Hann er búinn að gera þetta allt saman áður í körfuboltanum og það er frábært að hafa hann með sér í þessu á hliðarlínunni,“ sagði Frank Aron í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert