Valur bætti fjórða bikarnum í safnið

Valskonur unnu öruggan sigur gegn Keflavík í meistarakeppni KKÍ í …
Valskonur unnu öruggan sigur gegn Keflavík í meistarakeppni KKÍ í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar Vals unnu þægilegan sigur gegn Keflavík þegar liðin mættust í Meistarakeppni KKÍ í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með 105:81-sigri Valskvenna sem leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 53:42.

Valskonur juku forskot sitt hægt og rólega í þriðja leikhluta en lið Keflavíkur skoraði einungis sjö stig í þriðja leikhluta gegn 27 stigum Vals. Þrátt fyrir að Keflavík hafi unnið fjórða leikhluta með sex stigum kom það ekki að sök og Valur fagnaði öruggum sigri.

Guðbjörg Sverrisdóttir var stigahæst í liði Vals með 22 stig, tvö fráköst og eina stoðsendingu og Hallveig Jónsdóttir kom þar á eftir með 16 stig. Hjá Keflavík var Daniela Morillo stigahæst með 36 stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar.

Þetta var fjórði titill Valskvenna á árinu en liðið er ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeistari. Keppni í úrvalsdeild kvenna, Dominos-deildinni, hefst 2. október næstkomandi þegar Valur heimsækir Grindavík og Keflavík sækir KR heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert