Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar samdi í gær við landsliðsmanninn Gunnar Ólafsson. Gunnar skrifaði undir þriggja ára samning við bikar- og deildarmeistara Stjörnunnar en liðið er til alls líklegt í ár. Stjarnan vann stórsigur gegn Íslandsmeisturum KR í síðustu umferð úrvalsdeildarinnar og situr í efsta sæti deildarinnar með 14 stig eftir níu leiki, líkt og Keflavík og Tindastóll.
Í lok ágúst tilkynnti Stjarnan að félagið hefði ákveðið að draga kvennalið sitt úr keppni í úrvalsdeild kvenna. Mikill stígandi hafði verið í kvennastarfinu í Garðbæ, undanfarin ár, og fór Stjarnan meðal annars í bikarúrslit á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði fyrir þreföldum meisturum Vals. Þá fór Stjarnan í undanúrslit Íslandsmótsins þar sem liðið féll úr keppni eftir oddaleik gegn Keflavík í Keflavík.
„Þar sem nokkuð vantar upp á að Stjarnan geti skipað liðið með uppöldum Stjörnuleikmönnum væri eina úrræði Stjörnunnar að fá erlenda leikmenn, eða leikmenn frá öðrum liðum, í þeirra stað. Stjórn Kkd. Stjörnunnar metur það svo að heppilegra sé að hlúa betur að yngri iðkendum Stjörnunnar og leggja grunn að liði sem gæti spilað í úrvalsdeild innan fárra ára,“ sagði í tilkynningu sem Stjarnan sendi frá sér 22. ágúst síðastliðinn.
Vefsíðan Fúsíjama.TV tók saman áhugaverða tölfræði í gær. Þar kemur fram að af níu af mínútuhæstu leikmönnum liðsins í úrvalsdeild karla í vetur eru sjö þeirra aðkomumenn. Gunnar Ólafsson bætist svo við þennan hóp og má fastlega gera ráð fyrir því að hann sé ekki mættur í Garðabæinn til þess að sitja á bekknum. Hér fyrir neðan má sjá hvernig mínútufjöldinn hefur dreifst á leikmenn Stjörnunnar en Fúsíjama.TV tók saman.
Margir hafa tjáð sig á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að Stjarnan greindi frá samningi sínum við Gunnar Ólafsson, þar á meðal er Ragna Margrét Brynjarsdóttir, fyrrverandi landsliðskona og leikmaður Stjörnunnar. Ragna Margrét lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril en hefur áður látið í ljós óánægju sína með þá ákvörðun Stjörnunnar að draga kvennaliðið úr keppni.