Þegar Kobe Bryant tilkynnti í lok nóvember 2015 að hann hefði ákveðið að leggja körfuboltaskóna á hilluna að því keppnistímabili loknu skrifaði Gunnar Valgeirsson, sérfræðingur Morgunblaðsins og mbl.is í NBA-körfuboltanum, kveðjugrein um þennan magnaða íþróttamann í Morgunblaðið.
Gunnar er búsettur í Los Angeles og hefur skrifað um NBA-körfuboltann fyrir Morgunblaðið í 35 ár og fylgdist því grannt með Kobe Bryant allan hans feril og var sem fréttamaður á gríðarlega mörgum heimaleikjum hans með Los Angeles Lakers.
Á þessum degi þegar sú harmafregn hefur borist að Kobe Bryant hafi látist í þyrluslysi ásamt 13 ára dóttur sinni og þremur öðrum er við hæfi að birta þessa kveðjugrein Gunnars í heilu lagi. Hún hefur áður aðeins birst að hluta hér á mbl.is en var í heild sinni í Morgunblaðinu 1. desember 2015.
Undirritaður hefur fylgst með NBA-boltanum í næstum hálfa öld og haft þá ánægju að vera viðstaddur hundruð leikja á undanförnum þremur áratugum hér vestra.
Á undanförnum sautján árum hef ég getað fylgst náið með Kobe Bryant, bakverði Los Angeles Lakers. Hann gaf út þá yfirlýsingu á sunnudag að hann myndi hætta keppni í deildinni að loknu þessu keppnistímabili.
Yfirlýsing Bryants gaf til kynna ástæðu ákvörðunarinnar í ljóðrænu formi, þar sem hann ávarpar körfuboltaíþróttina:
Ég hef ekki meira að gefa en þetta keppnistímabil.
Hjartað getur tekið barninginn.
Hugurinn streðið.
En líkaminn veit að tíminn er kominn til að kveðja.
Það er í lagi.
Ég er tilbúinn að láta af þér.
Við höfum gefið hvor öðrum allt sem við áttum.
Yfirlýsing kappans kemur fæstum á óvart hér í Los Angeles. Hann er 37 ára og eftir að hann sleit hnésbótarsinina 2013 hefur hann ekki verið sami leikmaðurinn, rétt eins og þeir sem vel þekkja til þeirra meiðsla spáðu þegar hann meiddist. Hann hefur aðeins hitt úr 31 prósenti skota sinna á þessu keppnistímabili og hefur ekkert að gera í yngri og fljótari leikmenn boltans í dag. Hné- og axlarmeiðsl hafa ekki bætt úr hlutunum og Bryant hefur augljóslega séð það.
Ef allt gengur vel hjá honum það sem eftir lifir af tímabilinu mun Bryant spila síðasta leik sinn í deildinni gegn Utah Jazz 13. apríl hér í Staples Center.
Eftir að ég flutti til Los Angeles og fór reglulega að sjá leiki Lakers í Staples Center var ég svo heppinn að geta fylgst með gullaldarárum liðsins á þessari öld með þá Bryant og Shaquille O´Neal í broddi fylkingar, og síðan titlana tvo þegar Pau Gasol tók við miðherjastöðunni.
Í flestum þessara leikja hef ég setið fáeinar sætaraðir frá vellinum í einu horni Staples Center og því getað fylgst grannt með gangi mála í leikjum.
Keppnistímabil eftir keppnistímabil var það Bryant sem vakti ávallt mestu athyglina. Í huga mínum nú sé ég hann rekja knöttinn upp leikvöllinn með stuttbuxurnar dansandi í ákveðnum hringlanda þar til hann tekur af skarið og treður knettinum af miklum ákafa yfir einhvern gapandi varnarmanninn.
Það verður sannarlega sjónarsviptir að horfa á Lakers án Bryants.
Stuðningsfólk Lakers má sjálfsagt búast við mörgum mögrum árum nú, enda er rekstur þess í rústum eftir að Jerry Buss, sem lengst af átti liðið, lést fyrir þremur árum. Þrettán töp í fimmtán leikjum það sem af er þessu tímabili og ekki líklegt að sá árangur muni breytast verulega.
Takk fyrir minningarnar, Kobe.
Gunnar Valgeirsson, Los Angeles