Talið er líklegast að þoka og slæmt skyggni af völdum hennar hafi verið orsök þyrluslyssins hörmulega í útjaðri Los Angeles í gær þegar körfuknattleiksmaðurinn Kobe Bryant, Gianna dóttir hans og sjö aðrir létust. Þetta kemur fram í frétt frá Reuters.
Þyrlan, sem var Sikorski S-76 og í eigu Bryants sjálfs, rakst á bratta brekku í graslendi rétt utan við bæinn Calabasas sem er um 65 kílómetra norðvestur af miðborg Los Angeles. Lögregluyfirvöld skýrðu frá því nokkrum klukkutímum eftir slysið að allir níu farþegarnir hefðu látist en tala þeirra var á reiki til að byrja með eftir slysið sem átti sér stað um klukkan 18 að íslenskum tíma í gær, um tíu að morgni í Kaliforníu.
Fram kom í staðarmiðlum að Bryant og aðrir sem voru með í þyrlunni, m.a. hafnaboltaþjálfarinn John Altobelli, eiginkona hans og dóttir, hafi verið á leið til borgarinnar Thousand Oaks í nágrenninu þar sem til stóð að Bryant stýrði liði dóttur sinnar í körfuboltamóti. Þá hefur Christina Mauser körfuboltaþjálfari verið nafngreind sem eitt af fórnarlömbunum. Yfirvöld hafa hins vegar ekki gefið upp nein nöfn enn sem komið er.
Reuters segir að skilyrði hafi verið slæm vegna þoku og hefur eftir Los Angeles Times og CNN að um morguninn hafi lögregluyfirvöld í Los Angeles kyrrsett sinn þyrluflota af hennar völdum. Ekki sé vitað hvort flugmaður þyrlu Bryants hafi verið þjálfaður fyrir flug við þessar aðstæður.
Bryant hefur um árabil notað þyrlu til að ferðast um í nágrenni Los Angeles til að forðast frægar umferðarteppur í kringum borgina.