Hálf vandræðalegt undir lokin

Þóra Kristín Jónsdóttir í baráttunni við Emilie Hesseldal í Laugardalshöll …
Þóra Kristín Jónsdóttir í baráttunni við Emilie Hesseldal í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svekkjandi, það er hundleiðinlegt að mæta í Höllina og tapa í fjögurra liða úrslitum,“ sagði Þóra Kristín Jónsdóttir, leikstjórnandi Hauka, í samtali við mbl.is eftir 86:79-tap liðsins gegn Skallagrími í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfuknattleik, Geysisbikarnum, í Laugardalshöll í kvöld.

„Við töpuðum boltanum of oft í leiknum. Svo eru þær með tvo geggjaða leikmenn í Keiru Robinson og Emile Hesseldal og við bara náðum ekki að stoppa þær tvær í dag. Við vorum klaufar á köflum fannst mér en að sama skapi er líka erfitt að vera elta allan leikinn. Heilt yfir þá byrjum við leikinn ekki nægilega vel og það setur okkur í vandræði út allan leikinn.“

Hauka liðið lenti í villuvandræðum snemma leiks en Lovísa Björt Henningsdóttir, lykilmaður liðsins, gat lítið spilað í seinni hálfleik vegna villuvandræða, líkt og Sigrún Björg Ólafsdóttir.

„Mér fannst við vera vel stilltar í upphitun en svo getur það verið fljótt að breytast þegar að þú kemur inn á völlinn. Við lendum líka í ákveðnum villuvandræðum snemma í leiknum og það hafði klárlega áhrif á okkar leik. Randi, Lovísa og Sigrún voru allar komnar í villivandræði í þriðja leikhluta og þetta eru allt byrjunarliðsleikmenn í okkar liði og það hafði mikið að segja. Ég fann ekki fyrir þreytu en sóknarleikur liðsins lá aðeins á mér, þar sem að aðrir leikmenn voru í vandræðum villulega séð, og þetta var orðið hálf vandræðalegt hjá okkur í lokin þar sem við vissum ekki alveg hvað við áttum að spila með þetta lið inn á.“

Þrátt fyrir tapið viðurkennir Þóra að Haukaliðið geti lært mikið af leik kvöldsins.

„Þetta er klárlega leikur sem við munum læra mikið af og við munum vonandi ekki brjóta jafn oft af okkur aftur eftir að hafa tapað boltanum heimskulega. Það fengu líka ungir leikmenn að spreyta sig í dag og þetta var allt í reynslubankann hjá þeim og mun hjálpa okkur þegar fram líða stundir,“ sagði Þóra Kristín í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka