KR leikur til úrslita í Geysisbikar kvenna í körfuknattleik eftir sigur á Íslands- og bikarmeisturum Vals 104:99 eftir framlengdan leik í Laugardalshöll í kvöld. KR mætir annað hvort Haukum eða Skallagrími í úrslitum.
Leikurinn var mögnuð skemmtun og skemmtilegasti körfuboltaleikur sem undirritaður hefur séð í Laugardalshöllinni í langan tíma. Frábær auglýsing fyrir íþróttina þar sem 3-stiga körfunum rigndi.
Staðan var 50:44 fyrir KR að loknum fyrri hálfleik. Leikurinn var í járnum en KR hafði yfirhöndina fyrst og fremst vegna frábærrar hittni fyrir utan 3-stiga línuna. Undir lok þriðja leikhluta náði KR níu stiga forskoti og forskotið varð tólf stig í upphafi fjórða leikhluta. Þá hafði liðið hitt úr 16 af 30 þriggja stiga skotum sínum.
Ef til vill hafa Valskonur vitað að slík hittni gæti varla varað heilan leik og þær fóru ekki á taugum. Söxuðu á forskotið og þegar Hildur Björg Kjartansdóttir fékk hvíld með 4 villur um miðjan síðasta leikhluta þá sætti Valur færis og hleypti frekari spennu í leikinn. Munurinn var aðeins eitt stig á lokakaflanum. KR náði tveggja stiga forskoti á lokamínútunni en þá jafnaði Kiana Johnson fyrir Val 86:86 af vítalínunni. KR fékk síðustu sóknina í venjulegum leiktíma en náði ekki að nýta hana og framlengja þurfti.
Þar náði Valur fimm stiga forskoti en það dugði ekki til. Hallveig Jónsdóttir fór út af með 5 villur en hún hafði sett niður sjö þriggja stiga skot og átti stóran þátt í því að Valur vann upp forskotið og komst yfir í framlengingunni. KR vann þann mun upp og þá kom kafli þar sem liðin skiptust á að komast yfir. KR-konur fundu aftur leiðina í þriggja stiga skotunum og þrjár slíkar á skömmum tíma frá Sönju Orazovic og Daniellu Rodriguez komu liðinu í kjörstöðu. KR vann 104:99. Í raun gerðist þvílíkt mikið í framlengingunni og ekki hægt að koma því öllu til skila en það var í takti við stórskemmtilegan leik.
Hildur Björg Kjartansdóttir átti stórbrotin leik en hún skoraði 37 stig fyrir KR. Hún hitti úr 5 af 7 þristum og tók 8 fráköst. Danielle skoraði 31 stig og gaf 11 stoðsendingar. Hún hitti úr 6 af 10 þristum. Sanja Orazovic skoraði 24 stig en hún setti niður 6 af 12 þristum. KR hitti úr 20 af 41 fyrir utan 3-stiga línuna sem er draumaniðurstaða í mikilvægum leik gegn firnasterkum andstæðingi.
Hjá Val skoraði Kiana Johnson 30 stig fyrir Val og var stigahæst en Hallveig var með 29 stig. Hún setti niður 7 af 12 í þristum og sýndi að hún er toppleikmaður. Helena Sverrisdóttir skoraði 24 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.