Sanja Orozovic reyndist KR mikilvæg í undanúrslitum Geysisbikarsins gegn Val í Laugardalshöll í dag. Hún skoraði alls sjö þriggja stiga körfur og þar af tvær í framlengingunni en KR sigraði 104:99.
„Ég er mjög hátt stemmd á þessum tímapunkti. Þetta var virkilega góður leikir fyrir áhorfendur sem og þau sem á horfðu í sjónvarpi. Er það ánægjulegt og fyrir okkur er mjög skemmtilegt að hafa nú unnið Val í fyrsta skipti í vetur. Okkur tókst það þegar mestu máli skipti og við erum því mjög hamingjusamar,“ sagði Orozovic sem kemur frá Serbíu en er einnig með ungverskt ríkisfang.
Eins og hún bendir á hafði Valur unnið leiki liðanna í deildinni í vetur og eru þeir alls þrír. KR valdi heppilegan tímapunkt til að komast yfir þann þröskuld.
„Þegar maður mætir Val í undanúrslitum þá er það svolítið eins og úrslitaleikur áður en kemur að öðrum úrslitaleik. Einfaldlega vegna þess að þær eru efstar í deildinni og verða það örugglega út deildakeppnina. Valur er virkilega gott lið og ég ber mikla virðingu fyrir Valskonum. Manni fannst ekki endilega að við værum að komast nær því að vinna þær vegna þess að Valur vann stórt þegar við mættum þeim í janúar. Í leikjunum tveimur gegn þeim fyrir áramót töpuðum við hins vegar naumlega. Við lö-gðum hins vegar mikla vinnu á okkur í vikunni til að undirbúa okkur sem best og þegar á hólminn var komið áttum við allar góðan leik. Ekki bara einn eða tveir leikmenn.“
Orozovic skoraði síðustu sex stigin í leiknum fyrir utan þriggja stiga línuna og tryggði sigurinn. Hún fékk tækifæri til að skjóta í síðustu sókn venjulegs leiktíma en náði ekki að grípa boltann almennilega í æsingnum og þegar hún náði að hleypa af var jafnvægið takmarkað og skotið geigaði. Hvernig voru taugarnar þegar hún lét vaða í framlengingunni?
„Ég hugsaði ekkert heldur skaut bara. Ég gat tryggt okkur sigurinn í lok venjulegs leiktíma en hitti ekki einu sinni hringinn. Ég ákvað að dvelja ekki við það í framlengingunni heldur láta vaða ef ég fengi tækifæri til,“ sagði Sanja Orozovic í samtali við mbl.is í Laugardalshöll.