Bikarinn áfram í Ásgarði

Stjarnan er bikarmeistari 2020.
Stjarnan er bikarmeistari 2020. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Stjarnan varð bikarmeistari annað árið í röð körfuknatt­leik karla eftir sigur á Grindavík 89:75 í úrslitaleik Geys­is­bik­arsins í Laug­ar­dals­höll­inni í dag. 

Eftir jafnan fyrri hálfleik seig Stjarnan fram úr og lagði grunninn að sigrinum með öflugum leik í þriðja leikhluta eins og liðið hefur svo oft gert í leikjum á árinu. Sama var uppi á teningnum í undanúrslitunum gegn Tindastóli. Þá stakk Stjarnan af eftir jafnan fyrri hálfleik. 

Grindvíkingar náðu þó að hanga betur í Garðbæingum heldur en Sauðkrækingum tókst. Að loknum fyrri hálfleik í úrslitaleiknum í dag var staðan 36:34 fyrir Stjörnuna en leikurinn var algerlega í járnum í fyrri hálfleik.  

Í þriðja leikhluta náði Stjarnan undirtökunum og kom sér upp vænlegu forskoti. Fyrir síðasta leikhlutann var munurinn orðinn ellefu stig, 66:55. Þá var ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir Grindvíkinga. Þeir gáfust ekki upp en geysilega vel mannað lið Stjörnunnar sýndi fá veikleikamerki og landaði sigrinum nokkuð örugglega. 

Átta leikmenn skoruðu fyrir Stjörnuna í dag sem sýnir ágætlega breiddina í leikmannahópnum. Ægir Þór Steinarsson og Nikolas Tomsick skoruðu 19 stig hvor fyrir Stjörnuna. Ægir gaf auk þess 14 stoðsendingar og var valinn maður leiksins af KKÍ. 

Sigryggur Arnar Björnsson er maður bikarleikjanna og skoraði 23 stig í dag en það dugði ekki til fyrir Grindavík. Ólafur Ólafsson skoraði 20 stig. 

Grindavík vann Fjölni í undanúrslitum á miðvikudaginn og Stjarnan lagði Tindastól að velli.

Grindavík - Stjarnan 75:89

Laugardalshöll, Bikarkeppni karla, 15. febrúar 2020.

Gangur leiksins:: 6:6, 8:10, 12:14, 19:18, 22:23, 28:27, 32:32, 34:36, 45:46, 47:49, 53:61, 55:66, 57:71, 66:75, 69:79, 75:89.

Grindavík: Sigtryggur Arnar Björnsson 23/5 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 20, Valdas Vasylius 13/8 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 12/9 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5, Jens Valgeir Óskarsson 2.

Fráköst: 20 í vörn, 8 í sókn.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 19/4 fráköst/14 stoðsendingar, Nikolas Tomsick 19, Kyle Johnson 14/5 fráköst, Urald King 14/11 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 9/12 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 5, Arnþór Freyr Guðmundsson 5/4 fráköst, Gunnar Ólafsson 4.

Fráköst: 32 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson.

Áhorfendur: 2245

Lið Stjörnunnar í bikarúrslitaleiknum.
Lið Stjörnunnar í bikarúrslitaleiknum. KKÍ/Jónas Ottósson.
Sigtryggur Arnar skorar fyrstu körfu Grindvíkinga í úrslitaleiknum.
Sigtryggur Arnar skorar fyrstu körfu Grindvíkinga í úrslitaleiknum. KKÍ/Jónas Ottósson
Grindavík 75:89 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert