Skoraði 76 stig í Höllinni

Keira Robinson með boltann í úrslitaleiknum í gær. Ekki má …
Keira Robinson með boltann í úrslitaleiknum í gær. Ekki má líta af henni og Ástrós Lena Ægisdóttir leikmaður KR gerir sér grein fyrir því. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Kiera Robinson fór á kostum í liði Skallagríms í Geysisbikarnum. Hún var valin maður leiksins í úrslitaleiknum gegn KR þar sem hún skoraði 32 stig. Í undanúrslitunum gegn Haukum á fimmtudaginn skoraði hún 44 stig. 

„Þetta var virkilega skemmtilegt. Við vorum brosandi frá fyrstu mínútu enda var engin pressa á okkur. Við komum því til leiks með því hugarfari að njóta leiksins og það gerðum við. Stuðningsmennirnir stóðu við bakið á okkur og við slökuðum bara á í öxlunum og höfðum gaman að því að spila körfubolta,“ sagði Robinson þegar mbl.is spjallaði við hana í Laugardalshöllinni þegar niðurstaðan lá fyrir en Skallagrímur vann 66:49. 

Eftir frábæran sigur KR á fráfarandi bikarmeisturum Vals áttu margir von á því að meðbyrinn yrði með KR í úrslitaleiknum. 

„Við áttuðum okkur á því að við værum að mæta sterku liði. KR er frábært lið með flotta leikmenn. Það var því engin spurning um að þetta yrði barátta og við þyrftum á okkar besta að halda til að vinna.“

Robinson var valin maður leiksins eftir úrslitaleikinn af KKÍ en hún var illviðráðanleg eins og stigaskorið sýnir en hún skoraði rétt tæplega helming stiga Skallagríms. Í 8-liða úrslitum keppninnar gegn ÍR í janúar skoraði hún 21 stig og í bikarnum í ár skoraði hún því 32 stig að meðaltali í þremur leikjum. 

„Ég verð að hrósa liðsfélögum mínum því þær hafa mikla trú á mér. Þær leyfa mér að taka mörg skot og hafa trú á því að ég geti skorað. Ég er þakklát fyrir það,“ sagði Robinson við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert