Geggjað að fá stærra hlutverk

Tryggvi Snær Hlinason og Andre Jones eigast við undir körfunni …
Tryggvi Snær Hlinason og Andre Jones eigast við undir körfunni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Tryggvi Snær Hlinason var óstöðvandi í 83:74-sigri Íslands á Slóvakíu í forkeppni HM í körfubolta 2023 í Laugardalshöll í kvöld. Ísland tapaði fyrir Kósóvó í fyrsta leik og er því með einn sigur og eitt tap eftir fyrstu tvo leikina. 

„Liðsvörnin okkar var betri en í fyrsta leiknum. Við gáfum mun færri færi á okkur en á móti Kósóvó þar sem við gáfum þeim of mörg frí skot. Við náðum að loka á þá í þetta skiptið og það var vel gert hjá okkur.

Tryggvi Snær í leiknum í kvöld.
Tryggvi Snær í leiknum í kvöld. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Okkur tókst svo að gera það sem við ætluðum að gera í sókninni. Við gerðum þær árásir sem við vildum gera og náðum að búa til skot sem við settum niður. Margir settu niður stór skot, t.d. Kári var mjög heitur,“ sagði Tryggvi í samtali við mbl.is eftir leikinn. 

Ísland var með forystuna nánast allan leikinn og hélt Slóvökum í skefjum, sérstaklega í seinni hálfleik. Sigurinn var að lokum sannfærandi. 

Náðu að loka á besta mann Slóvaka

„Manni leið ekkert geggjað vel í byrjun en svo náðum við dampi í þetta og áttuðum okkur betur á því hvernig þeir spiluðu. Við náðum að loka vel á Vladimír Brodziansky, þeirra besta mann sem spilar á Spáni. Pavel vann geggjað starf á honum í vörninni.“

Tryggvi var eini leikmaður íslenska hópsins sem spilar erlendis og vantar marga sterka leikmenn. Hann er ánægður að fá stærra hlutverk innan liðsins. 

„Það er geggjað að fá stærra hlutverk þegar það vantar stærri menn, það þarf að fylla upp í og ég tek glaður við þessu hlutverki. Það vantar bæði Hauk og Martin sem eru okkar bestu leikmenn. Við náðum að fylla vel í þeirra skarð í dag og spila hörkuvel.“

Tryggvi skoraði sjálfur 26 stig, tók 17 fráköst, varði átta skot og gaf eina stoðsendingu. Hann endaði með 41 framlagspunkt, rétt tæplega helmingi fleiri en næstu menn. „Á meðan við vinnum er ég stoltur og enn meira þegar tölurnar eru svona skemmtilegar,“ sagði Tryggvi Snær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert