Körfuknattleikskappinn Valur Orri Valsson er á leið til Keflavíkur á nýjan leik en það er Vísir.is sem greinir frá þessu í dag. Valur Orri mun því klára tímabilið með Keflavík en hann hefur leikið með Florida Tech í bandaríska háskólaboltanum undanfarin ár þar sem hann er stoðsendingahæsti leikmaður í sögu skólans.
Valur Orri lék síðast með Keflvíkingum tímabilið 2015-16 þar sem hann skoraði 13 stig að meðaltali í leik, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar. „Það er ekki komið á hreint hvenær hann fær flug og ég veit ekki alveg hvenær hann nær að spila sinn fyrsta leik,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Vísi í dag.
Keflavík er sem stendur í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, Dominos-deildarinnar, með 26 stig, fjórum stigum minna en topplið Stjörnunnar, og tveimur stigum meira en Tindastóll sem er í öðru sæti deildarinnar.