Rekin frá Haukum

Ólöf Helga Pálsdóttir hefur stýrt Haukum frá árinu 2018.
Ólöf Helga Pálsdóttir hefur stýrt Haukum frá árinu 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur sagt upp samningi sínum við þjálfarann Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem hefur verið þjálfari kvennaliðs félagsins á þessari leiktíð en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér.

Ólöf Helga var ráðin þjálfari Hauka í maí 2018 og var á sínu öðru tímabili með liðið. Hún hafði áður þjálfað yngri flokka hjá Grindavík, áður en hún tók við Haukum, en hún tók við starfinu af Ingvari Guðjónssyni sem gerði liðið að Íslandsmeisturum vorið 2018.

Bjarni Magnússon, sem verið hefur aðstoðarþjálfari Hauka, mun stýra liðinu á æfingum og í næstu leikjum liðsins þangað til nýr þjálfari tekur við að því er fram kemur í fréttatilkynningunni úr Hafnarfirði.

Haukar eru sem stendur í fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna, Dominos-deildarinnar, með 26 stig, jafn mörg stig og Skallagrímur, sem er í fjórða sætinu. Þá fóru Haukar alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar þar sem liðið féll einmitt úr leik gegn bikarmeisturum Skallagríms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert