Brynjar Þór ekki með KR vegna kórónuveirunnar

Brynjar Þór Björnsson
Brynjar Þór Björnsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksmaðurinn Brynjar Þór Björnsson ætlar ekki að taka þátt í leik KR og Stjörnunnar á Íslandsmótinu á morgun vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en þetta tilkynnir hann í færslu á facebookvef sínum.

„Í ljósi frétta af Covid-19 hef ég ákveðið að spila ekki á morgun þegar leikur KR og Stjörnunnar fer fram. Ég tel óskynsamlegt að mæta á jafn fjölmennan stað og DHL-höllin mun vera annað kvöld,“ segir Brynjar og skorar hann á íþróttahreyfingu að fresta hópsamkomum á meðan óvissuástand ríkir.

Um er að ræða mikilvægan leik í Dominos-deildinni en Íslandsmeistarar KR eru í 4. sæti sem stendur og gestir morgundagsins eru topplið Stjarnan. Það er þó annað og meira undir að mati Brynjars.

Við erum að glíma við mjög alvarlegan smitsjúkdóm á Íslandi og það er líklega hægt að draga úr útbreiðslu hans með réttum aðgerðum. Með því að forðast hópsamkomur á meðan óvissuástand ríkir þá gæti það skipt sköpum að bregðast við strax.
Flestir sem veikjast alvarlega gera það ekki fyrr en eftir 10-14 daga veikindi svo við erum ekki farin að sjá rétta mynd enn.

Ég skora á íþróttahreyfinguna að taka fyrirtæki í landinu sér til fyrirmyndar og fresta hópsamkomum á meðan óvissuástand ríkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert