„Þessi tilkynning kom á óvart, Brynjar hafði hvorki samband við mig né neinn hjá félaginu, hann er ekki að tala fyrir hönd körfuknattleiksdeildar KR og ég er ekki sáttur við þetta,“ sagði Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, í samtali við mbl.is rétt í þessu.
Fyrr í morgun gaf Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, út yfirlýsingu þess efnis að hann ætlaði ekki að spila með liðinu gegn Stjörnunni á Íslandsmótinu á morgun vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
„Ég er búinn að tala við Brynjar, hann er þarna að gefa út persónulega yfirlýsingu og það er alveg ljóst að hann mun ekki spila á morgun. Hann verður að standa og falla með þessari ákvörðun,“ bætti Böðvar við en sagði að körfuknattleiksdeildin ætlaði að anda með nefinu og fylgja tilmælum yfirvalda.
„Þetta ástand mun standa yfir í einhverjar vikur, jafnvel mánuði. Það er ekki KR-inga eða einhverra einstakra félaga að ákveða það hvort leikurinn á morgun fari fram eða ekki. Það er auðvitað KKÍ sem tekur ákvörðun um þetta í samráði við yfirvöld.“
„Við öndum bara með nefinu og verðum róleg í þessu. Ég tek undir með Hannesi, formanni KKÍ, að við verðum að halda ró okkar, fylgjast með framgangi mála og hlusta á yfirvöld. Ég veit að öll önnur félög innan hreyfingarinnar munu gera það sama.“