Númer eitt, tvö og þrjú að halda ró okkar

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ fyrir miðju.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ fyrir miðju. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við erum í stöðugu sambandi við yfirvöld á hverjum einasta degi og fylgjumst með því sem þau segja og gera. Það er ekkert samkomubann í dag á Íslandi og við munum framfylgja því sem yfirvöld segja,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, í samtali við mbl.is rétt í þessu.

„Ég held að það sé ekki gott að hvert og eitt sérsamband eða hver og ein eining ákveði sjálf hvað hún ætli að gera,“ bætti hann við en Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, gaf út tilkynningu í morgun þess efnis að hann ætlaði ekki að spila gegn Stjörnunni á Íslandsmótinu á morgun vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hannes ítrekaði það að KKÍ fylgdist stöðugt með gangi mála en hvatti jafnframt til þess að fólk héldi ró sinni og fylgdi fyrirmælum yfirvalda.

„Við erum algjörlega á vaktinni og það er fátt annað rætt en hvað við eigum að gera. Númer eitt, tvö og þrjú fyrir alla er að halda ákveðinni ró og fara eftir því sem yfirvöld segja, það er ekki samkomubann á Íslandi í dag. Það er því ekki búið að banna íþróttaviðburði en það breytist auðvitað allt mjög hratt í þessu. Við erum komin upp í 34 kórónusmit í dag en við höfum sérfræðinga og heilbrigðisyfirvöld sem eru að vinna í þessum málum.“

Ég skil alveg að fólk sé hrætt

Þá benti hann á að Íþróttasamband Íslands hefði sent póst á hreyfinguna og ítrekað að ekki væri enn tilefni til að fresta viðburðum. „ÍSÍ sendi út póst á alla hreyfinguna í dag til að ítreka að það er ekki samkomubann og að við verðum að halda ró okkar.

Ég skil alveg að fólk sé hrætt, ég held að við séum það öll. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá hugsar maður stanslaust: hvað á maður að gera, hvert á maður að fara og hvar á maður ekki að vera?“ bætti Hannes við.

Hefurðu áhyggjur af því að fleiri leikmenn muni fylgja fordæmi Brynjars og draga sig úr keppni?

„Ég hef ekki áhyggjur af því, en auðvitað gæti það gerst. Þá verðum við bara að taka á því þegar þar að kemur og fara eftir því sem yfirvöld segja okkur. Við verðum að hlusta á heilbrigðisyfirvöld og almannvarnir, þau hafa unnið vel undanfarna daga og við treystum yfirvöldum til að meta þetta,“ svaraði Hannes.

„Eins og allir aðrir þá skoðum við þetta frá morgni til kvölds. Það er enginn að reyna að ýta þessu frá sér, það eru allir á vaktinni ef það má orða það þannig.“

Brynjar Þór Björnsson hefur dregið sig úr leik KR og …
Brynjar Þór Björnsson hefur dregið sig úr leik KR og Stjörnunnar á morgun vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert