Rögnvaldur Hreiðarsson varð síðasta föstudagskvöld fyrsti Íslendingurinn til að dæma tvö þúsund körfuboltaleiki í mótum á vegum Körfuknattleikssambands Íslands þegar hann dæmdi leik Keflavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla.
Hann hefur dæmt samfleytt frá því í janúar árið 1995, eða í rúmlega 25 ár, og því dæmt að jafnaði 80 leiki á ári frá þeim tíma, eða tæplega sjö leiki í hverjum einasta mánuði.
Rögnvaldur sagði við Morgunblaðið að hann væri stoltur af þessum leikjafjölda og hefði gert sér grein fyrir því fyrir nokkru að það væri ekki langt í þennan stóra áfanga.
„Vissulega er ég dálítið stoltur af þessu og finnst skemmtilegt að hafa náð þessum tímamótum, það get ég viðurkennt. Ég vissi alveg hvað ég þyrfti marga leiki þegar þetta tímabil byrjaði og þetta tvö þúsund leikja takmark er eitt af því sem hefur haldið mér gangandi. En einhver áfangi í leikjafjölda dugar ekki einn og sér til að maður haldi áfram að dæma, það þarf annað og meira til.“
Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.