Þegar keppnisferli er lokið hjá heimsfrægum íþróttakempum þá geta viðtölin orðið safaríkari en meðan á ferlinum stóð. Þegar kempurnar eru í fullu fjöri eru ýmsir hagsmunir sem hafa áhrif á hvað þær láta frá sér fara. Stórir samningar við samstarfsaðila og félögin eru í húfi ef viðkomandi er í liðsíþrótt. Ímyndin og orðsporið á sinn þátt í fjárhagslegu öryggi þeirra.
Í kringum NBA-deildina hefur það gerst í ríkari mæli að frægar kempur, sem hættar eru að spila, segja sögur frá ferlinum í alls kyns þáttum í sjónvarpi, útvarpi og á netinu. Í einhverjum tilfellum eru þetta leikmenn sem eru nánast horfnir úr kastljósi fjölmiðlanna og eru þá tilbúnir að gefa sér tíma og rifja upp eitt og annað.
Þegar menn eru spurðir út í þekkta leikmenn þá er mjög áhugavert að heyra sögur af Michael Jordan sem gjarnan er nefndur til sögunnar sem besti körfuknattleiksmaður heims frá upphafi. Frábærir leikmenn hafa sagt ýmsar magnaðar sögur af Jordan síðustu árin, löngu eftir að hann hætti að spila. Þessar frásagnir veita fólki meiri innsýn og fara með hinn almenna áhugamann á bak við tjöldin og inn á völlinn í mörgum tilfellum. Frásagnirnar lýsa gjarnan keppnisskapinu sem bjó í Jordan en benda einnig til þess að maðurinn hafi haft algera yfirburði gegn samtímamönnum sínum í körfunni. Hann virðist hafa getað skorað nánast að vild í NBA-deildinni eins og margir benda á. Þar sem Jordan var ekki eigingjarn leikmaður sem ekkert afrekaði, þá eru þessar frásagnir enn athyglisverðari. Hann varð jú sex sinnum NBA-meistari og tvívegis ólympíumeistari.
Morgunblaðið tíndi til nokkrar sögur af Jordan þar sem skemmtanagildið er einnig gott. Jordan er frægur fyrir sálfræðihernað á vellinum sem vestan hafs er iðulega kallað „trash-talk“. Hann lét dæluna ganga inni á vellinum og gat komið mönnum úr jafnvægi. Hins vegar er merkilegt að þegar hann varð sjálfur reiður þá bitnaði það ekki á hans frammistöðu. Þá virtist hann tæta andstæðingana í sig.
Sá fyrsti sem vitnað er í er Byron Scott, fyrrverandi samherji Péturs Guðmundssonar hjá LA Lakers. Margfaldur meistari með Lakers á níunda áratugnum og maður sem þurfti að gæta Jordan í vörninni þegar liðið mætti Chicago Bulls.
Scott lýsti samtali við Jordan í The Dan Patrick Show. Liðin mættust í Los Angeles og Scott var ekki leikfær og lenti á sjúkralistanum. Jordan gaf sig á tal við hann fyrir leik þegar hann sá að Scott var borgaralega klæddur.
„Hver á þá að gæta mín í leiknum? Ég sagði honum að það yrði Anthony Peeler [sem þá var nýliði.] Ooooohhhh. Fimmtíu, svaraði Jordan.“
Scott áttaði sig á því að Jordan hefði átt við að þetta þýddi að hann myndi skora 50 stig í leiknum gegn Lakers. Sjálfur sagðist Scott aldrei hafa sagt eða gert neitt sem myndi æsa Jordan upp. Það væri heimskulegt. Afleiðingarnar af því væru þær að Jordan gæti þá tekið upp á því að skora 60 stig. Hann reyndi því að halda honum niðri með vinsemd eins og hann orðaði það. Scott fór til Peeler og sagði honum að Jordan myndi líklega reyna að skora 50 stig. Bað Peeler vinsamlegast um að reita Jordan ekki til reiði. Reyna að vera rólegur.
Svo fór að Jordan skoraði 54 stig. „Maðurinn gat gert nokkurn veginn það sem honum sýndist á körfuboltavellinum,“ bætti Scott við.
Þegar Jordan var orðinn besti leikmaður deildarinnar, og tekinn við af Larry Bird og Magic Johnson sem aðalmaðurinn, þá gerðu hrokafullir nýliðar stundum þau mistök að láta hafa eitthvað eftir sér opinberlega áður en þeir mættu Jordan í fyrsta skipti. Ef ummælin bentu til þess á einhvern hátt að þeir teldu sig eiga einhverja möguleika gegn Jordan þá endaði það með ósköpum þegar að leiknum kom. Þegar Jordan fékk slíka hvatningu þá valtaði hann yfir menn.
Jason Kidd kom inn í deildina með nokkrum látum sem nýliði en gætti þess að segja aldrei neitt neikvætt um Jordan. Hann sagði skemmtilega frá sinni fyrstu viðureign gegn Jordan þegar Kidd var nýliði hjá Dallas Mavericks.
„Í fyrsta skipti sem ég þurfti að gæta hans í Dallas þá var ég taugaóstyrkur og Jordan tók sennilega eftir því. Hann kom alla vega til mín og sagði: Ekki hafa neinar áhyggjur. Ég kann vel við þig og mun því ekki niðurlægja þig. Flott, svaraði ég en spurði hvort niðurlæging þýddi að hann skoraði 50 stig. Nei nei, sagði Jordan. Ég mun taka það rólega gegn þér.
Svo gerist það í leiknum að hann snýr sér frá mér og fer meðfram endalínunni. Stekkur upp að körfunni og gat auðveldlega troðið með látum. Ekki troða, hugsaði ég með mér. Þá hékk hann í loftinu, fór undir körfuna, og lagði boltann mjúklega ofan í hinum megin við hringinn. Þegar hann hljóp til baka sagði hann við mig: Ég sagði þér að ég myndi ekki niðurlægja þig.
Þegar upp var staðið skoraði hann 35 stig í leiknum og þar af voru ekki nema 20 þegar ég var að gæta hans,“ sagði Kidd og hló.
Isaiah Rider og Kevin Garnett hafa báðir sagt frá magnaðri atburðarás þegar þeir léku með Minnesota Timberwolves gegn hinu frábæra liði Bulls árið 1996.
Minnesota var yfir þegar 3. leikhluta lauk og það í Chicago. Rider þurfti að glíma við Jordan og hafði gert það nokkrum sinnum áður. Rider hafði vit á því að æsa ekki Jordan upp að óþörfu og honum gekk mjög vel fram að þessu. Hafði skorað 24 stig og Jordan var með um 18 stig. Á sama tíma gekk hinum kornunga Garnett vel gegn Scottie Pippen og skoraði um 30 stig þegar upp var staðið.
Þegar menn gengu af velli að loknum þriðja leikhluta var Garnett mjög hátt uppi og fór að hvetja Rider áfram. Sagði ýmislegt á þá leið að Jordan ætti ekki möguleika gegn honum. Rider væri of líkamlega sterkur fyrir Jordan og þess háttar. Sagði samherjanum að halda áfram að sækja á Jordan. Rider verður vandræðalegur og bendir Garnett á að Jordan standi nú bara nánast við hliðina á þeim. Garnett segist vera alveg sama. Jordan ráði ekkert við Rider. Isiah Rider reyndi strax að minnka skaðann sem strákurinn hafði valdið og segir við Jordan: „Þetta er bara hvolpur. Hann veit ekki neitt. Hann skilur ekki „reglurnar.““ Jordan horfði hvasst á þá báða og sagði bara „ókei.“
Rider segir við Garnett í leikhléinu á milli leikhluta: „Ég þarf að gæta hans á vellinum en ekki þú.“ En Garnett skildi bara ekki að svona töluðu menn ekki við Jordan. Ekki var langt liðið á fjórða leikhluta þegar Jordan hafði bætt við 17 stigum og horfði til skiptis á Rider og Garnett. Tvívegis gerðist það að Minnesota náði ekki einu sinni að koma boltanum fram yfir miðju á tíu sekúndum og liðið skoraði ekki í fjórar mínútur. Svo fór að Jordan skoraði um 40 stig í leiknum og tveggja stiga forskotið varð að tuttugu og fimm stiga tapi. Garnett segist aldrei aftur hafa sagt styggðaryrði við Jordan á ferlinum.
Þriggja stiga skyttan Reggie Miller var umtalaður fyrir að láta dæluna ganga á vellinum. Sem nýliði mætti hann Jordan í æfingaleik fyrir tímabilið með Indiana Pacers en Jordan var á fjórða ári í deildinni.
„Reyndir leikmenn hafa takmarkaðan áhuga á leikjunum á undirbúningstímabilinu og bíða eftir því að deildin hefjist. Jordan var á sjálfstýringu en ég var æstur nýliði og blautur á bak við eyrun. Chuck Person [leikmaður Indiana] segir við mig: Þessi Michael Jordan á að geta gengið á vatni og það eru allir að tala um hann. Þú ert að slátra honum, Reggie.
Ég tók þetta á lofti og fór að segja eitt og annað við Jordan. Hann horfði á mig og hristi höfuðið en að loknum fyrri hálfleik var ég með 10 stig en hann aðeins 4 stig. Hann skoraði 44 stig í leiknum þegar upp var staðið og ég með 12 stig. Á milli okkar fór seinni hálfleikur því 40:2. Í leikslok sagði Jordan við mig: Farðu varlega. Svona talarðu ekki við hinn svarta Jesú.“
Miller segist aldrei hafa sagt neitt við Jordan á vellinum það sem eftir var ferilsins. Frá þessu sagði hann í sjónvarpsþætti Jimmy Kimmel.
Dominique Wilkins var helsta stjarna Atlanta Hawks um árabil. NBA-spekingar kannast við að Jordan skoraði 61 stig gegn Atlanta í Chicago tímabilið 1986-87. Lið Atlanta var mjög sterkt en lið Chicago var ekki orðið nógu sterkt á þeim tíma til að slá bestu liðunum við í úrslitakeppninni. Nýlega rifjaði Wilkins það upp að fyrir umræddan leik sátu hann og Kevin Willis í búningsherberginu í höllinni í Chicago og voru enn í jakkafötunum. Jordan kom inn í klefann og þeir félagar horfðu forviða á hann. Wilkins segir að þetta sé í eina skiptið sem hann hafi séð leikmann andstæðinganna koma inn í búningsklefann fyrir leik. Jordan sagði við þá: „Þetta verður langt kvöld fyrir ykkur.“
Svo fór að Atlanta vann með þriggja stiga mun í venjulegum leiktíma og Jordan skoraði 61 stig eins og áður segir.
Michael Jordan dró sig tvívegis í hlé í íþróttinni og snéri aftur. Í seinna skiptið lék hann tvö tímabil með Washington Wizards, liði sem hann hafði keypt, og var þá 39 og 40 ára. Þá hafði hann ekki spilað í þrjú ár og var auk þess lélegur í öðru hnénu. Ein ástæða þess að stundum er talað um Jordan sem aðra dýrategund er sú að síðasta árið lék hann alla 82 leiki Washington, 37 mínútur að meðaltali og skoraði 20 stig að meðaltali yfir tímabilið.
Doug Collins var þjálfari Washington og hafði þjálfað Jordan um tíma hjá Bulls. Í leik á móti Indiana tók hann Jordan út af. Liðið var töluvert undir og Collins sagði Jordan að hann vildi hvíla hann. Margir leikir væru framundan. Hann vissi ekki að Jordan hafði skorað 8 stig í leiknum og var það í fyrsta skipti í mörg hundruð leikjum þar sem Jordan náði ekki tveggja stiga tölu í stigaskorun. Í rútunni á leið út á flugvöll spurði Jordan hvort Collins hefði enn trú á því að hann væri samkeppnishæfur sem leikmaður. Collins sagði svo vera. Tvímælalaust. Jordan sagði eitthvað á þá leið að ákvörðunin um að taka sig út hefði verið rétt og honum stæði á sama hversu mörg stig hann skoraði. En hann þyrfti einungis að fullvissa sig um að þjálfarinn hefði enn trú á honum, fertugum manninum.
Michael fékk sér nokkra áfenga drykki í fluginu heim og fékk sér vindil eftir að vélin lenti að sögn Collins. Gerði í raun allt sem leikmenn ættu ekki að gera. Klukkan var orðin 3:30 um nóttina þegar liðsmenn Washington skiluðu sér heim eftir ferðalagið. Klukkan 7:30 morguninn eftir var Jordan mættur á æfingu hjá styrktarþjálfaranum og var hraustlega tekið á. Kvöldið eftir mætti Washington liði New Jersey Nets og Jordan skoraði 51 stig. Í næsta leik á eftir skoraði Jordan 46 stig og sagði þá við Collins: Ég sagði þér að ég gæti enn spilað.
„Ég var frá mér numinn yfir því sem þessi maður gat framkvæmt á þessum aldri, með slæmt hné og hafði skorið sig á fingri ofan á allt annað. Andlegi styrkurinn var engu líkur.“
Grant Hill viðurkenndi að hann hefði ætlað sér að ná alvöru frammistöðu gegn Jordan á síðasta tímabili Jordans með Washington. Nú væri lag þegar maðurinn væri orðinn fertugur.
„Við mættum þeim í Orlando og mér gekk virkilega vel í vörninni. Ég varði til dæmis þrjú skot frá honum. Við mættum þeim aftur í Washington um mánuði síðar og þá var ég meiddur á ökkla. En þetta var síðasta tækifærið til að spila gegn Jordan og ég gaf því kost á mér. Egóið fór illa með mig því ég hélt að ég gæti haldið aftur af honum vegna þess að mér gekk vel gegn honum mánuði áður. Hann skoraði 20 stig gegn mér í fyrsta leikhlutanum. Að leikhlutanum loknum fékk ég mér ekki sæti á bekknum heldur fór bara inn í búningsklefa og í sturtu. Tveimur dögum síðar fór ég í aðgerð á ökklanum,“ sagði Hill.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 11. apríl 2020.