Njarðvíkingur skiptir yfir til Grindavíkur

Kristinn skrifaði undir samning við Grindavík í dag.
Kristinn skrifaði undir samning við Grindavík í dag. Ljósmynd/Grindavík

Körfuknattleiksmaðurinn Kristinn Pálsson hefur ákveðið að yfirgefa uppeldisfélagið Njarðvík og halda yfir brautina til Grindavíkur. 

Kristinn hefur allan sinn feril leikið með Njarðvík að undanskildum árum í bandaríska háskólaboltanum og hjá Stella Azura á Ítalíu. 

Þá hefur hann leikið með A-landsliðinu á síðustu árum, alls 15 leiki. Kristinn skoraði 9,8 stig og tók 5,4 fráköst að meðaltali með Njarðvík í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð. 

„Faðir Kristins er Páll Kristinsson sem lék með Grindavík um árabil. Segja má að Kristinn feti þar með í fótspor föður síns og ríkir gríðarleg ánægja innan körfuknattleiksdeildar Grindavíkur með að hreppa þennan hæfileikaríka leikmann,“ segir í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér. 

„Kristinn er frábær leikmaður sem hlaut góða þjálfun ungur að árum í Njarðvík og úr góðu prógrammi á Ítalíu þar sem hann stóð sig vel. Sömuleiðis hefur hann leikið með einu sterkasta yngra landsliði Íslands ásamt því að hafa verið í háskólaboltanum. 

Ég þjálfaði Kristin í Njarðvík þegar hann kom heim úr skóla, þannig að ég þekki hann vel. Það er sterkt fyrir okkar lið að fá hávaxinn bakvörð, sem er góður skotmaður og frákastari. Hann hefur að geyma mikla körfuboltahæfileika en það sem eru hvað sterkustu eiginleikarnir hjá Kristni eru leiðtogahæfileikar hans og skilningur á leiknum,“ er haft eftir Daníel Guðna Guðmundssyni, þjálfara Grindavíkur, í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert