Annar forljótur en hinn gullfallegur

Ingi Þór Steinþórsson er mættur í Garðabæinn eftir tvö ár …
Ingi Þór Steinþórsson er mættur í Garðabæinn eftir tvö ár í Vesturbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Um leið og það varð ljóst að ég væri á förum frá KR hafði Arnar strax samband við mig,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, nýráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi Garðbæinga í Sjálandi í Garðabæ í dag.

Ingi Þór skrifaði undir eins árs samning við Stjörnuna en honum var sagt upp störfum hjá KR í byrjun maímánaðar. Ingi Þór er á meðal reynslumestu þjálfara landsins en hann gerði KR tvívegis að Íslandsmeisturum, síðast árið 2019 þegar liðið vann sjötta Íslandsmeistaratitil sinn í röð. 

Þá gerði hann KR einnig að Íslandsmeisturum árið 2000, karlalið Snæfells að Íslands- og bikarmeisturum 2010 og kvennalið Snæfells að Íslandsmeisturum á árunum 2014 til ársins 2016.

„Mér stóð ýmislegt til boða eftir að ég var rekinn frá KR og ég er mjög þakklátur fyrir þann áhuga sem mér hefur verið sýndur á undanförnum dögum. Það voru nokkur lið sem mér stóð til boða að taka við en það besta í stöðunni fyrir mig persónulega var samt að semja við Stjörnuna.“

Þjálfarateymi Stjörnunnar á næstu leiktíð.
Þjálfarateymi Stjörnunnar á næstu leiktíð. mbl.is/Bjarni Helgason

Mikill metnaður í Garðabæ

Arnar Guðjónsson var ráðinn þjálfari Stjörnunnar árið 2018 en liðið varð bikar- og deildarmeistari á síðustu leiktíð sem og þar síðustu leiktíð. Liðið hefur hins vegar aldrei orðið Íslandsmeistari en ásamt Inga og Arnari verður Danielle Rodriguez einnig í þjálfarateymi félagsins.

„Við Arnar erum mjög ólíkir karakterar. Í fyrsta lagi er hann forljótur á meðan ég er gullfallegur og sýnir einna helst hversu ólíkir við erum. Ég held að við eigum eftir að mynda mjög sterkt teymi ásamt Danielle Rodriguez.

Það er mikill metnaður í Garðabænum og hann hefur alltaf verið til staðar. Núna eru þeir að gefa enn meira og ég verð að sjálfsögðu ekki bara hjá meistaraflokknum heldur líka með unglinga- og drengjaflokkinn í samstarfi við Álftanes sem er virkilega spennandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert