Hrafn áfram hjá Álftanesi

Hrafn Kristjánsson.
Hrafn Kristjánsson. mbl.is/Hari

Körfuknattleiksdeild Ungmennafélags Álftaness hefur framlengt samning sinn við Hrafn Kristjánsson, þjálfara meistaraflokks karla, en hann hefur stýrt liðinu síðustu tvö tímabil.

Hrafn, sem vann titla með bæði KR og Stjörnunni, kom liði Álftaness upp úr 2. deildinni á fyrra tímabilinu og þá var liðið búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppni um sæti í úrvalsdeildinni áður en Íslandsmótinu var aflýst vegna kórónuveirunnar.

Liðið mun spila í nýjum íþróttasal í 1. deildinni á næstu leiktíð þar sem aðstaða félagsins í Forsetahöllinni verður betrumbætt. Þá hafa Stjarnan og Álftanes aukið við samstarf sitt og munu félögin til að mynda starfrækja sameiginlegan unglingaflokk.

„Það hefði þurft eitthvað mikið að gerast til að ég myndi ekki framlengja hjá Álftanesi. Síðasta tímabil var mjög skemmtilegt og gefandi og við erum mjög ánægðir með þá stefnu sem við höfum markað fyrir næsta tímabil,“ er haft eftir Hrafni í fréttatilkynningu sem Álftanes sendi á fjölmiðla í dag.

„Það er aldrei að vita nema einhverjir leikmenn líti hýru auga til þess að leika á næstu leiktíð á nýju gólfi í Forsetahöllinni en með því og nýjum áhorfendabekkjum teljum við okkur búa að aðstöðu sem jafnast á við það besta á landinu. Við erum mjög sáttir við nýtt samkomulag við Stjörnuna og hlökkum til að sjá hverju það kemur til með að skila til ungra efnilegra leikmanna í bæjarfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert