Gamla ljósmyndin: Augnaráðið

Morgunblaðið/Bjarni

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson var með ólíkindum sigursæll á körfuboltaferlinum og lék ávallt með Njarðvík hér heima. 

Fljótlega eftir að Teitur vann sig inn í sterkt lið Njarðvíkinga á níunda áratugnum vakti hann athygli fyrir fleira en vasklega framgöngu. Augnaráð Teits gat verið mjög sérstakt í leikjum og stundum virtist sem augun ætluðu út úr höfðinu á honum. Með tímanum varð Teitur þekktur fyrir þennan augnsvip og er hann sást vissu stuðningsmenn Njarðvíkur að þeirra maður var rétt stilltur. Í seinni tíð mátti stöku sinnum sjá honum bregða fyrir þegar Teitur var á hliðarlínunni sem þjálfari. 

Myndin fangar augnaráðið býsna vel og sýnir hversu litríkur Teitur gat verið á velli. Myndina tók Bjarni Eiríksson í leik Njarðvíkur og KR keppnistímabilið 1989-1990. 

Teitur vann til tíu Íslandsmeistaratitla og sjö bikarmeistaratitla með Njarðvík á árunum 1984-2002, og var fjórum sinnum valinn leikmaður ársins. Hann lék með Larissa í efstu deild í Grikklandi 1996-1997. Teitur lék 118 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. 

Sem þjálfari gerði Teitur Stjörnuna að bikarmeistara árin 2009 og 2013 og var annar spilandi þjálfara Njarðvíkur sem varð Íslandsmeistari 2001 ásamt Friðriki Ragnarssyni. 

Teitur hafnaði þrívegis á meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna.

Teitur var í Úrvalsliði Íslands sem álitsgjafar völdu fyrir Morgunblaðið og birt var í blaðinu 7. maí 2016. 

Morgunblaðið/Bjarni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert