ÍR varð í dag annað félagið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik til að ráða kvenkyns aðstoðarþjálfara fyrir komandi keppnistímabil.
ÍR-ingar tilkynntu að Kristjana Eir Jónsdóttir hefði verið ráðin aðstoðarþjálfari ÍR-inga í meistaraflokki karla, og myndi auk þess þjálfa drengjaflokk félagsins. Hún verður því Borche Ilievski aðalþjálfara ÍR-liðsins til aðstoðar.
Á facebook-síðu ÍR segir að Kristjana, sem er 25 ára gömul, sé einn efnilegasti þjálfari landsins og með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hún er þjálfari U16 ára landsliðs kvenna.
Fyrir skömmu var Danielle Rodriguez ráðin aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar.