Martin vongóður um að meiðslin séu ekki alvarleg

Martin Hermannsson í leiknum við Ludwigsburg í gærkvöld.
Martin Hermannsson í leiknum við Ludwigsburg í gærkvöld. Ljósmynd/Alba Berlín

Martin Hermannsson landsliðsmaður í körfuknattleik fór meiddur af velli eftir aðeins rúmlega sex mínútna leik í gærkvöld þegar lið hans Alba Berlín sigraði Ludwigsburg, 97:89, í úrslitakeppninni um þýska meistaratitilinn í München.

Martin fékk slæma byltu og fór af velli. „Ég lenti beint á mjóbakinu og það er eins og ég sé með golfbolta innan í því. Mér fannst skynsamlegra að hætta en að halda áfram að reyna að spila. En þetta ætti ekki að vera alvarlegt og ég fæ núna smá hvíld fyrir næsta leik,“ sagði Martin við Morgunblaðið.

Þetta var hreinn úrslitaleikur liðanna um efsta sætið í B-riðli úrslitakeppninnar en bæði höfðu unnið þrjá fyrstu leikina. Alba Berlín vann þar með riðilinn og mætir Göttingen í átta liða úrslitunum en Göttingen hafnaði í fjórða sæti A-riðils.

Liðin mætast tvisvar, fyrst í „heimaleik“ Göttingen á fimmtudaginn og síðan á laugardagskvöldið, og sigurliðið samanlagt fer í undanúrslit. Í sjálfri deildakeppninni í vetur var Alba í fjórða sæti og Göttingen í níunda sæti þegar keppnin var stöðvuð vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Göttingen er fínt lið og mikil orka í leikmönnunum. En ef allt er eðlilegt eigum við að fara nokkuð þægilega í gegnum þetta einvígi,“ sagði Martin Hermannsson. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert