Eru félagaskipti Jóns umtalaðari en félagaskipti Jóns?

Stuðningsmenn KR verða varla jafn hrifnir af Jóni Arnóri næsta …
Stuðningsmenn KR verða varla jafn hrifnir af Jóni Arnóri næsta vetur og þeir voru vorið 2019 þegar þessi mynd var tekin. mbl.is/Hari

Félagaskipti Jóns Arnórs Stefánssonar úr KR í Val hafa skiljanlega vakið mikla athygli í íþróttaheiminum frá því að frá þeim var greint á miðvikudaginn. 

Jón Arnór var árum saman farsæll atvinnumaður í Evrópu, er annar af tveimur körfuboltamönnum til að fá sæmdarheitið íþróttamaður ársins og hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari með KR svo eitthvað sé nefnt. 

Félagaskiptin fóru illa í marga KR-inga eins og vænta mátti. Sást það ágætlega á samfélagsmiðlum. Atli Freyr Einarsson, fyrrverandi leikmaður KR og fyrrverandi stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild KR, sagði árið 2020 vera „annus horribilis“.

Færsla Atla.
Færsla Atla. Ljósmynd/Facebook-síða

Með tilliti til þess hve Jón Arnór er þekktur og í ljósi þess að rígur hefur verið á milli Vals og KR í gegnum áratugina þá velta því sjálfsagt margir fyrir sér hvort þessi félagaskipti séu þau sem mest umtal hafi vakið í körfuboltanum hér heima. Það kann að vera. 

Gripu andann á lofti

En í því samhengi er áhugavert að rifja upp félagaskipti sem urðu síðsumars 1977 eða fyrir fjörutíu og þremur árum. Þá fór Jón Sigurðsson, einn besti leikmaður Íslandsmótsins á árunum á undan, frá Ármanni og yfir í KR. Félagaskiptin vöktu geysilega mikla athygli en Jón Sig er af mörgum talinn í hópi bestu leikmanna Íslands frá upphafi. 

„Það þótti vitaskuld stórfrétt í íslenskum körfuboltaheimi þegar Jón Sigurðsson, fyrirliði Ármanns, tilkynnti félagaskipti yfir í KR í september 1977. Bæði var missir Ármanns mikill og vitað að þessi frábæri bakvörður yrði KR-ingum gríðarlegur styrkur,“ skrifaði Skapti Hallgrímsson í bókinni: Leikni framar líkambsburðum – Saga körfuknattleiks á Íslandi í hálfa öld. 

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Í ævisögu KR-ingsins Einars Bollasonar, sem Heimir Karlsson skrifaði, ber einn kaflinn einfaldlega heitið: Jón Sigurðsson í KR. Þar skrifar Heimir meðal annars eftir Einari: 

„Margir gripu andann á lofti þegar tilkynnt var að Jón Sigurðsson, leikmaður með Ármanni og íslenska landsliðinu, hefði ákveðið að ganga í raðir okkar KR-inga. Mér er til efs að nokkur félagaskipti í sögu körfuknattleiksíþróttarinnar hér á landi hafi vakið jafnmikla athygli fyrr og síðar. 

Jón var mikill hvalreki fyrir okkur Vesturbæinga, en jafnframt voru félagaskipti hans banabiti Ármenninga. Þau voru upphafið að upplausn körfuknattleiksdeildar Ármanns, en hún lagði upp laupana nokkrum árum síðar. Það var mjög sorglegt því Ármenningar höfðu verið með í uppbyggingu körfuknattleiksíþróttarinnar nánast frá upphafi.“ [Hér er rétt að nefna að bókin kom út árið 1994 og körfuknattleiksdeild er starfandi hjá Ármanni í dag]. 

„Alltaf bestur í mínum huga“

Nálægðin í íslenskri íþróttahreyfingu er talsverð enda fámenn þjóð sem býr hér á eyjunni. Þegar Jón Arnór Stefánsson útskýrði ákvörðun sína á Facebook-síðu sinni í vikunni þá ritaði einmitt Jón Sigurðsson þar ummæli: „Alltaf bestur í mínum huga.“ Ef einhver skilur stöðuna sem Jón Arnór er nú í er það líklega Jón Sigurðsson. 
Finnur Freyr Stefánsson, Jón Arnór Stefánsson og Svali Björgvinsson á …
Finnur Freyr Stefánsson, Jón Arnór Stefánsson og Svali Björgvinsson á blaðamannafundinum í vikunni. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert