Félagaskipti Jóns Arnórs Stefánssonar úr KR í Val hafa skiljanlega vakið mikla athygli í íþróttaheiminum frá því að frá þeim var greint á miðvikudaginn.
Jón Arnór var árum saman farsæll atvinnumaður í Evrópu, er annar af tveimur körfuboltamönnum til að fá sæmdarheitið íþróttamaður ársins og hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari með KR svo eitthvað sé nefnt.
Félagaskiptin fóru illa í marga KR-inga eins og vænta mátti. Sást það ágætlega á samfélagsmiðlum. Atli Freyr Einarsson, fyrrverandi leikmaður KR og fyrrverandi stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild KR, sagði árið 2020 vera „annus horribilis“.
Með tilliti til þess hve Jón Arnór er þekktur og í ljósi þess að rígur hefur verið á milli Vals og KR í gegnum áratugina þá velta því sjálfsagt margir fyrir sér hvort þessi félagaskipti séu þau sem mest umtal hafi vakið í körfuboltanum hér heima. Það kann að vera.
En í því samhengi er áhugavert að rifja upp félagaskipti sem urðu síðsumars 1977 eða fyrir fjörutíu og þremur árum. Þá fór Jón Sigurðsson, einn besti leikmaður Íslandsmótsins á árunum á undan, frá Ármanni og yfir í KR. Félagaskiptin vöktu geysilega mikla athygli en Jón Sig er af mörgum talinn í hópi bestu leikmanna Íslands frá upphafi.
„Það þótti vitaskuld stórfrétt í íslenskum körfuboltaheimi þegar Jón Sigurðsson, fyrirliði Ármanns, tilkynnti félagaskipti yfir í KR í september 1977. Bæði var missir Ármanns mikill og vitað að þessi frábæri bakvörður yrði KR-ingum gríðarlegur styrkur,“ skrifaði Skapti Hallgrímsson í bókinni: Leikni framar líkambsburðum – Saga körfuknattleiks á Íslandi í hálfa öld.
Í ævisögu KR-ingsins Einars Bollasonar, sem Heimir Karlsson skrifaði, ber einn kaflinn einfaldlega heitið: Jón Sigurðsson í KR. Þar skrifar Heimir meðal annars eftir Einari:
„Margir gripu andann á lofti þegar tilkynnt var að Jón Sigurðsson, leikmaður með Ármanni og íslenska landsliðinu, hefði ákveðið að ganga í raðir okkar KR-inga. Mér er til efs að nokkur félagaskipti í sögu körfuknattleiksíþróttarinnar hér á landi hafi vakið jafnmikla athygli fyrr og síðar.