Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Mikla athygli vakti þegar Njarðvík varð Íslandsmeistari í körfuknattleik árið 1991 með þjálfara sem var aðeins 22 ára gamall. Þótt lið Njarðvíkur hafi verið sigursælt áratuginn á undan og miklar væntingar gerðar til liðsins fékk Friðrik engu að síður tækifæri til að taka við liðinu sumarið áður. Samkvæmt lista sem tekinn var saman fyrir KKÍ yfir þjálfara í efstu deild karla er Friðrik sá yngsti sem tekið hefur við liði í deildinni.
Ekki virðist starfið hafa vaxið Friðriki í augum því Njarðvík vann 21 leik í deildinni tímabilið 1990-1991 en tapaði fimm. Friðrik sagði þó í samtali við Morgunblaðið 12. apríl 1991 að starfið hefði tekið á taugarnar: „Ég fann það í úrslitakeppninni hvað þetta getur verið erfitt og álagið mikið. Síðustu dagar hafa verið ótrúlegir og á tímabili var ég að fara yfir um,“ er haft eftir Friðriki.
Fleira vakti athygli íþróttaunnenda því Friðrik þótti afar snyrtilega til fara á hliðarlínunni þegar Njarðvíkurliðið keppti. Var gjarnan í jakkafötum, í skyrtu og með bindi. Telja margir að þarna hafi áhrif frá Bandaríkjunum náð til Íslands því körfuboltaþjálfarar þar vestra eru gjarnan snyrtilega klæddir í leikjum. Ef til vill var Friðrik undir „rælískum áhrifum“ en hárgreiðsla og klæðaburður Njarðvíkingsins minnti nokkuð á Pat Riley sem gert hafði garðinn frægan sem þjálfari Los Angeles Lakers.
Á myndinni rífur Friðrik Íslandsbikarinn á loft með tilþrifum í Ljónagryfjunni í Njarðvík fimmtudagskvöldið 11. apríl 1991 eftir mikla úrslitarimmu við nágrannana í Keflavík.
Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem starfað hefur fyrir Morgunblaðið og mbl.is árum saman sem ljósmyndari og blaðamaður. Tveir leikmenn liðsins sjást á myndinni. Vinstra megin er það Gunnar Örlygsson og hægra megin Kristinn Einarsson.
Friðrik Ingi starfar í dag hjá uppeldisfélaginu sem þjálfari en hefur víða komið við síðan 1991. Var um tíma landsliðsþjálfari karla og framdvæmdastjóri KKÍ í mörg ár svo eitthvað sé nefnt.