Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Fyrir þrjátíu árum síðan bundu KR-ingar endi á eyðimerkurgöngu hjá meistaraflokkum félagsins í karlaflokki þegar karlalið félagsins í körfuknattleik varð Íslandsmeistari 7. apríl 1990. Hafði þetta sigursæla félag þá ekki unnið Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki í boltagreinum karla í ellefu ár.
Ungverjinn László Németh stýrði KR og var á sínu öðru tímabili með liðið. Hann og stjórn KR brugðu á það ráð að fá leikmann frá Sovétríkjunum til liðs við sig keppnistímabilið 1989-1990 en nánast ávallt náðu íslensku liðin í erlendan leikmann frá Bandaríkjunum. Hét hann Anatolij Kovtum og var frá Simferopol við Svartahafið. Hörkuleikmaður sem náði að leika 6 A-landsleiki fyrir Sovétríkin. Kovtum þótti vera besti varnarmaður deildarinnar og skoraði auk þess 14 stig að meðaltali í úrslitakeppninni en KR-ingar unnu alla leiki sína í úrslitakeppninni.
Á myndinni sést Kovtum fagna undir lok síðasta leiks tímabilsins þegar ljóst var hvert stefndi en Axel Nikulásson heldur utan um hann og sést að hluta til. Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem myndað hefur og skrifað fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. KR-ingar léku heimaleiki sína á þessum tíma í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi.
„Ég hef unnið til allra verðlauna sem hægt er í körfubolta í Sovétríkjunum, en þetta er þriðji meistaratitillinn, var einnig meistari með CSKA Moskva og svo með Stroitel Kiev í fyrra. Þetta er ótrúlegt, en körfubolti er mitt líf og takmarkið er ávallt að gera sitt besta og hampa titli,“ sagði Kovtum meðal annars í samtali við Steinþór Guðbjartsson í Morgunblaðinu 10. apríl 1990.
Snemma á keppnistímabilinu lánuðu Haukar Bandaríkjamanninn Jonathan Bow til KR og lék hann Evrópuleiki með KR haustið 1989. Vakti það mikla athygli vegna þess að ekki var talið að Sovétmaður og Bandaríkjamaður hefðu áður leikið saman með félagsliði. Rataði mynd af Bow og Kovtum í KR-treyjunum til að mynda í blaðið USA Today með umfjöllun um leikina.
Kovtum lék þetta eina keppnistímabil hérlendis. Hafi hann hugsað sér að koma aftur tímabilið eftir þá urðu þær vonir að engu sumarið 1990 þegar hann slasaðist í bílslysi í heimalandinu. Missti hann meðal annars sjón á öðru auga. Kovtum varð bráðkvaddur árið 2005 aðeins 44 ára að aldri.