Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, gat lítið beitt sér gegn stórliði Barcelona í ACB-deildinni spænsku í kvöld. Hann fór úr lið á fingri strax á fjórðu mínútu leiksins.
Martin hafði þá ekki einu sinni gefist fær á að skjóta á körfuna og kom ekki meira við sögu en gat þó fagnað frábærum úrslitum með liðsfélögum sínum því Valencia vann 100:90 en leikurinn var í Barcelona.
Martin tjáði mbl.is í kvöld að hann hafi reynt að hita upp að nýju í hálfleik en ljóst var að hann myndi ekki geta beitt sér að fullu. Engin óþarfa áhætta var því tekin en þetta er í þriðja skipti sem sami fingurinn fer úr lið. Fyrst gerðist það í leik með KR og síðar á æfingu hjá Alba Berlín. Um er að ræða lita fingurinn á vinstri hendi en málið væri líklega aðeins alvarlegra fyrir Martin ef um væri að ræða hægri höndina.
Barcelona er stórveldi í körfuboltanum eins og í öðrum boltagreinum en þar hafa leikið kappar á borð við Gasol-bræðurna. Liðið leggur ekki í vana sinn að tapa leikjum á heimavelli. Var þetta þriðja tap Barcelona í fyrstu tólf leikjunum í deildinni á tímabilinu og er liðið í 3. sæti. Sigurinn er sætur fyrir Valencia. Ekki síst þar sem liðinu hefur gengið mun betur í Euroleague en í spænsku deildinni sem af er á tímabilinu. Var þetta fimmti sigur Valencia í ellefu leikjum og er liðið í 11. sæti.