Hjá körfuknattleiksdeild Hauka var fólk ekki lengi að gráta för landsliðsmannsins Kára Jónssonar til Spánar heldur var náð í öflugan leikmann til Grindavíkur.
Ingvi Þór Guðmundsson er genginn í raðir Hauka frá Grindavík en Haukar tilkynntu um félagaskiptin á heimasíðu sinni.
Ingvi skoraði 14 stig að meðaltali í Dominos-deildinni síðasta vetur, gaf að jafnaði 5 stoðsendingar og tók 5 fráköst í leik. Hann ætti því að styrkja lið Hauka verulega en Ingvi á marga leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.
Ingvi er uppalinn í Grindavík en foreldrarnir Guðmundur Bragason og Stefanía Jónsdóttir léku bæði körfuknattleik með Haukum um tíma. Eldri bróðir Ingva er Jón Axel, atvinnumaður í Þýskalandi og landsliðsmaður.