Eitt liðband slitið og tvö rifin

Haukur Helgi Pálsson verður frá keppni næstu vikurnar.
Haukur Helgi Pálsson verður frá keppni næstu vikurnar. Ljósmynd/EuroCup

„Ég sneri mig illa í leik gegn gömlu liðsfélögunum,“ sagði Haukur Helgi Pálsson landsliðsmaður í körfubolta í samtali við mbl.is. Haukur meiddist snemma leiks með MoraBanc Andorra er liðið fékk UNICS Kazan í heimsókn í Evrópubikarnum á miðvikudaginn var. Haukur skipti yfir í Andorra frá Kazan fyrir leiktíðina.

„Ég var að fara upp í þrist strax á 2. mínútu og fóturinn minn leiðist áfram og fótur varnarmannsins sömuleiðis og ég lendi á honum. Ég sleit eitt liðband, reif tvö í viðbót og verð frá í svona sex vikur samkvæmt læknunum sem eru bjartsýnir. Oft þegar ég meiði mig er ég fljótur að koma til baka.“

Mikið leikjaálag er hjá Andorra og er ljóst að Haukur munn missa af þónokkuð mörgum leikjum. „Ef ég hefði meiðst í desember þá hefði ég misst af 20 leikjum en nú er að komast aðeins meiri regla á þetta. Það er búið að vera svakaleg törn, en ég mun líklegast missa af um 15 leikjum,“ sagði Haukur sem viðurkennir að álagið hafi tekið á.

„Þetta er búið að vera strembið. Ég byrjaði tímabilið ágætlega en ríf síðan í nára. Ég kem svo til baka í nokkra leiki en fæ síðan Covid og beint eftir það voru 14 leikir á rúmlega 30 dögum. Maður gerði varla annað en fljúga og spila án þess að ná sér almennilega á milli.“

Illa hefur gengið hjá Andorra síðustu vikur og er liðið búið að tapa tíu af síðustu ellefu leikjum. Liðið er í ellefta sæti af nítján liðum í spænsku A-deildinni og tapaði fyrsta leiknum af sex í riðlakeppni 16-liða úrslita Evrópubikarsins á miðvikudaginn.

„Við erum búnir að vera í basli með meiðsli í hópnum. Þetta átti að vera fyrsti leikurinn í gær síðan á undirbúningstímabilinu sem við erum allir saman. Við erum búnir að vera missa menn út hér og þar og við höfum ekki náð að klára leiki sem eru jafnir. Þetta er búið að vera brekka, en við erum enn þá jákvæðir.“

Haukur kann annars vel við sig í smáríkinu Andorra. „Klúbburinn er flottur, liðsfélagarnir skemmtilegir og landið mjög fallegt. Ég mæli með að fólk kíki til Andorra,“ sagði Haukur Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert