KKÍ hefur frestað tveimur leikjum sem áttu að fara fram í Dominos-deild karla í körfuknattleik í dag vegna ófærðar. Þetta eru leikir Þórs Akureyri við KR og Hattar við Tindastól.
Í tilkynningu frá KKÍ kemur fram að leikjunum sé frestað vegna lokunar á Öxnadalsheiði, en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ekki vitað hvenær heiðin verður opnuð þar sem enn er snjóflóðahætta á heiðinni sjálfri.
Stefnt er að því að spila báða leikina annað kvöld, mánudaginn 25. janúar. Leikur Hattar og Tindastóls mun fara fram klukkan 18:30 og leikur Þórs og KR mun fara fram klukkan 19:15.