Martin Hermannsson var með fullkomna skotnýtingu í tveggja stiga skotum sínum þegar lið hans Valencia fékk Zalgiris Kaunas í heimsókn í Evrópudeildinni í körfuknattleik í kvöld.
Leiknum lauk með eins stigs sigri Zalgiris Kaunas, 79:78 en Martin skoraði 13 stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar á þeim 22 mínútum sem hann lék.
Martin skoraði úr öllum fimm tveggja stiga skotum sínum og þá skoraði hann úr öllum þremur vítum sínum. Hann reyndi eitt þriggja stiga skot í leiknum sem hann klikkaði á.
Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en Marius Grigonis tryggði Zalgiris Kaunas sigurinn með flautukörfu.
Valencia er í tíunda sæti Evrópudeildarinnar með ellefu sigra og ellefu töp. Liðið er einum sigri frá úrslitakeppni Evrópudeildarinnar.