Bjuggumst við stáli í stál

Ægir Þór Steinarsson í leiknum í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson í leiknum í kvöld. Kristinn Magnússon

Landsliðsbakvörðurinn Ægir Þór Steinarsson átti mjög góðan leik þegar lið hans Stjarnan vann öruggan sigur gegn Keflavík í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld. Ægir Þór náði þrefaldri tvennu í leiknum, sem vannst 115:75, þar sem hann skoraði 17 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Í samtali við mbl.is eftir leik sagðist hann hafa búist við jafnari leik. „Fyrir augað var þetta kannski smá vonbrigðaleikur. Við vorum persónulega að búast við því að þetta yrði stál í stál allan leikinn. Það kom svolítið á óvart að við skyldum ná svona mikilli forystu og að við höfum náð að halda henni,“ sagði Ægir Þór.

Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 31:9 og þar með var tónninn settur fyrir það sem koma skyldi. „Fyrir vikið er maður ánægður með það að við náðum svolítið að kýla á þá til þess að byrja með. Ég er mjög ánægður með þennan sigur,“ bætti hann við.

Spurður um hvað hafi helst skapað sigurinn sagði Ægir Þór bættan varnarleik hafa skipt sköpum: „Uppleggið var að spila betri varnarleik en við höfum verið að gera undanfarnar vikur. Ég held að það hafi svolítið sett tóninn fyrir okkur. Þetta var í raun og veru bara vörnin.

Við höfum verið að frákasta illa undanfarna leiki og ekki spilað neitt sérstaklega góða vörn. Það er eitthvað sem við erum búnir að fara yfir og ætluðum að framkvæma í þessum leik. Svo eru færslur hér og þar sem við gerum vel á móti þeim sérstaklega og það virkaði.“

Mjög stutt er á milli leikja eftir að þriggja mánaða hlé var gert á deildinni vegna kórónuveirufaraldursins. „Það er bara tempó. Nú er að ná endurheimt strax og svo er leikur strax á mánudaginn,“ sagði hann. Stjarnan heimsækir Grindvíkinga á mánudaginn kemur í öðrum toppslag.

Ægi Þór þykir gaman að fá að spila svona marga leiki á stuttum tíma. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt og maður þarf að vera snjall. Ef maður finnur einhverja þreytu verður maður að ná að jafna sig og hlusta á líkamann og allt þetta. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt fyrirkomulag og þetta kennir okkur margt held ég, fyrir það sem koma skal,“ sagði hann við mbl.is að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert