Stjarnan gjörsigraði Keflavík í toppslag Dominos-deildarinnar í körfuknattleik karla í Garðabænum í kvöld. Garðbæingar unnu að lokum 40 stiga sigur, 115:75, og tylltu sér þar með á topp deildarinnar við hlið Keflavíkur.
Stjörnumenn mættu vægast sagt ákveðnir til leiks. Eftir að Keflvíkingar höfðu minnkað muninn í 8:4 tóku Stjörnumenn öll völd. Þeir skoruðu næstu 16 stig og staðan því orðin 24:4. Í fyrsta leikhluta komst liðið mest í 23 stiga forystu í 31:8. Keflvíkingar skoruðu úr einu vítaskoti og staðan því 31:9 að loknum fyrsta leikhluta.
Eftir nokkuð jafnræði framan af í öðrum leikhluta tóku Stjörnumenn aftur öll völd á vellinum og juku jafnt og þétt við forystu sína þar til hún var orðin 36 stig. Staðan í hálfleik 66:30 þar sem Stjörnumenn voru að hitta afar vel og spiluðu framúrskarandi varnarleik með gamla brýnið Hlyn Bæringsson í broddi fylkingar.
Í síðari hálfleiknum var meira jafnræði með liðunum en forysta Stjörnumanna orðin slík og þvílík að þeir voru meira en sáttir við það. Staðan að loknum þriðja leikhluta 93:56 og Garðbæingar á góðri siglingu.
Stjörnumenn bættu svo aðeins í í fjórða og síðasta leikhluta og unnu að lokum öruggan 40 stiga sigur, 115:75.
Þetta var alvöruliðsframmistaða hjá Stjörnunni þar sem leikmenn dreifðu stigunum vel á milli sín, hittu afar vel yfir höfuð og þá sérstaklega úr þriggja stiga skotum (53 prósent nýting). Þá var varnarleikur Stjörnumanna framúrskarandi, þar sem gamla brýnið Hlynur Bæringsson var í broddi fylkingar.
Keflvíkingar náðu sér aldrei á strik og gekk bölvanlega í sóknarleiknum. Skotnýting þeirra úr þriggja stiga skotum var til að mynda afleit, aðeins 17 prósent.
Stigahæstir í liði Stjörnunnar voru nýliðinn A.J. Brodeur með 19 stig, Mirza Sarajlija með 18 stig og Ægir Þór Steinarsson með 17 stig, en Ægir Þór var með þrefalda tvennu þar sem hann tók einnig 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
Stigahæstur Keflvíkinga var Deane Williams með 17 stig.
Stjarnan er nú á toppi deildarinnar með jafnmörg stig og Keflavík, 10 eftir sex leiki, en með betra stigaskor.
Mathús Garðabæjar-höllin, Dominos deild karla, 29. janúar 2021.
Gangur leiksins:: 10:4, 16:4, 26:7, 31:9, 41:17, 48:26, 55:29, 66:30, 70:34, 78:38, 85:50, 93:56, 97:64, 104:69, 111:71, 115:75.
Stjarnan: Austin James Brodeur 19/8 fráköst, Mirza Sarajlija 18, Ægir Þór Steinarsson 17/10 fráköst/10 stoðsendingar, Alexander Lindqvist 15/4 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 10, Gunnar Ólafsson 9, Hugi Hallgrímsson 9/5 fráköst, Dúi Þór Jónsson 6/8 stoðsendingar, Hlynur Elías Bæringsson 5/4 fráköst, Orri Gunnarsson 5, Hilmir Hallgrímsson 2.
Fráköst: 32 í vörn, 11 í sókn.
Keflavík: Deane Williams 17/7 fráköst, Calvin Burks Jr. 16/4 fráköst, Dominykas Milka 10/4 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 8/4 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 6, Ágúst Orrason 5, Hörður Axel Vilhjálmsson 5, Arnór Sveinsson 3, Magnús Pétursson 3, Davíð Alexander H. Magnússon 2.
Fráköst: 20 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem, Einar Þór Skarphéðinsson.