Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur í körfuknattleik karla, sagði allt hafa farið úrskeiðis hjá sínum mönnum þegar þeir töpuðu með 40 stiga mun, 75:115, gegn Stjörnunni í Dominos-deildinni í kvöld.
„Það var bara allt. Við spiluðum hörmulega. Þeir náðu forskoti, einhverjum 20 stigum og við vorum að elta og þá fórum við bara að spila þeirra leik, sem þeir eru góðir í, að flýta leiknum. Þar af leiðandi jókst munurinn. Við vorum úr okkar þægindaramma í rauninni, út úr okkar leik. Þannig að það er ekkert skrítið að það bættist bara við forskotið,“ sagði Hjalti Þór í samtali við mbl.is að leik loknum.
Hann fór nánar út í það sem aflaga fór í leiknum í kvöld. „Við hittum 10 prósent fyrir utan, þriggja stiga, 30 prósent fyrir innan, tveggja stiga. Við vorum ekki að ná að stoppa þá neitt, við vorum ekki einu sinni að klukka þá. Það var bara allt sem fór úrskeiðis. Einhvern veginn vorum við miklu þyngri en þeir í öllum aðgerðum okkar.“
Þrátt fyrir tapið líst Hjalta Þór vel á framhaldið. „Bara mjög vel. Við vissum alveg að við myndum ekki fara taplausir í gegnum þessa deild og að einhvern tímann myndum við lenda á vegg.
Það er oft hollt líka að lenda á vegg. Þá er bara að sjá hvernig karakterar eru í liðinu til að rífa okkur upp aftur. Það er ágætt að læra inn á það líka,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.