Landsliðið á leiðinni til Slóveníu

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er leikjahæst í landsliðshópnum.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er leikjahæst í landsliðshópnum. Ljósmynd/FIBA

Kvenna­landslið Íslands í körfuknatt­leik er lagt af stað til Slóveníu þar sem það mætir Grikklandi og Slóveníu í undankeppni Evrópumótsins dagana 4. og 6. febrúar en þrettán leikmenn skipta landsliðshópinn fyrir leikina tvo.

Hópurinn lagði af stað frá Íslandi í dag jafnvel þótt fimm dagar séu í fyrsta leikinn í Ljubljana en það var nauðsynlegt vegna takmarkaðra möguleika í flugsamgöngum samkvæmt tilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands. Ísland átti að spila við Grikk­land á heima­velli og Slóven­íu á úti­velli en eins og gert var í síðustu landsliðstörn í nóv­em­ber er í staðinn spilað á heima­velli eins liðanna í riðlin­um af sótt­varna­ástæðum og sett upp svo­kölluð búbbla á viðkom­andi leikstað.

Ísland hef­ur tapað öll­um fjór­um leikj­um sín­um í riðlin­um en þetta eru tveir þeir síðustu. Ljóst er að liðið held­ur ekki áfram keppni. Slóven­ar eiga sig­ur í riðlin­um nokkuð vís­an eft­ir fjóra sigra í jafn­mörg­um leikj­um en Grikk­ir og Búlgar­ar eru með tvo sigra hvor þjóð og berj­ast um annað sætið. Fyrri leik­ur­inn við Grikki, í Grikklandi, tapaðist 89:54 og fyrri leik­ur­inn við Slóvena sem fram fór á grísku eyj­unni Krít tapaðist 94:58.

Sem fyrr segir eru 13 leikmenn í hópnum sem Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari valdi. Ásta Júlía Gríms­dótt­ir úr Val og Anna Ing­unn Svans­dótt­ir úr Kefla­vík eru nýliðar, hvor­ug á A-lands­leik að baki.

Íslenski hóp­ur­inn:
Anna Ing­unn Svans­dótt­ir · Kefla­vík (nýliði)
Ásta Júlía Gríms­dótt­ir · Val­ (nýliði)
Bríet Sif Hinriks­dótt­ir · Haukum (4)
Dag­björt Dögg Karls­dótt­ir · Val­ (6)
Emel­ía Ósk Gunn­ars­dótt­ir · Kefla­vík (9)
Guðbjörg Sverr­is­dótt­ir · Val­ (22)
Hall­veig Jóns­dótt­ir · Val­ (21)
Hild­ur Björg Kjart­ans­dótt­ir · Valr (32)
Isa­bella Ósk Sig­urðardótt­ir · Breiðabliki (6)
Lovísa Björt Henn­ings­dótt­ir · Hauk­um (4)
Sara Rún Hinriks­dótt­ir · Leicester Ri­ders, Eng­landi (21)
Sigrún Sjöfn Ámunda­dótt­ir · Skalla­grím­i (55)
Þóra Krist­ín Jóns­dótt­ir · Hauk­um (19)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert