Króatíski körfuknattleiksmaðurinn Zvonko Buljan hefur gert samning við ÍR og mun hann leika með Breiðhyltingum út leiktíðina.
Buljan hóf tímabilið með Njarðvík en náði aðeins einum leik með liðinu áður en hlé var gert á Íslandsmótinu vegna kórónuveirunnar. Í kjölfarið riftu Njarðvíkingar samningi sínum við leikmanninn.
Buljan vakti athygli í eina leik sínum með Njarðvík sem kom í sigri á KR í 1. umferð Dominos-deildarinnar en hann var úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir hreðjatak.
Greip hann þá í kynfæri leikmanns KR. Myndband af atvikinu sýndi með óyggjandi hætti að brotið hefði verið framið.